Laugardagur 12. desember 2015

Vefþjóðviljinn 346. tbl. 19. árg.

Lesendur eru eindregið hvattir til að líta litla stund á beina útsendingu frá umræðum á alþingi. Þar gefur á að líta röðina af stjórnarandstæðingum í málþófi um fjárlagafrumvarpið. Í dag, laugardag, er fundað eins og nokkur undanfarin kvöld í vikunni til að mæta málæðinu.

Þegar þetta er skrifað eru stjórnarandstæðingar að kveina undan því í óteljandi ræðum að geta ekki skipt inn í þingsalinn þeim þingmönnum sem fóru á fínu loftslagsráðstefnuna í París í vikunni. Varaþingmenn þessara þingmanna sitja á þingi fram yfir helgi samkvæmt þeim reglum sem gilda um innköllun varaþingmanna. Svo virðist sem formenn þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna hafi ekki kynnt málið fyrir þingmönnum og varaþingmönnum sínum með þeim afleiðingum að ýmsir þeirra reyndu að tvímenna í þingsætin. Þannig voru bæði Birgitta Jónsdóttir og Björn Leví Gunnarsson varamaður hennar mætt í þinghúsið í morgun.

Og hvers vegna er þetta málþóf? Er það til að tefja einhver mál frá ríkisstjórninni? Nei, það eru engin mál frá stjórninni. Þetta málþóf er af því bara. Bara til að gera eitthvað.

Og málþófið skýrst aðeins af einu. Það er áfallið, ef ekki áfallastreita eða áfallastreituröskun, yfir því að kjósendur hafi hafnað framhaldi á stjórn þessa fólks vorið 2013.