Miðvikudagur 18. nóvember 2015

Vefþjóðviljinn 322. tbl. 19. árg.

„[L]ögreglan leyfir sér nú þegar botnlaust virðingarleysi fyrir réttindum borgaranna,“ segir formaður Pírata um tiltekið ríki.
„[L]ögreglan leyfir sér nú þegar botnlaust virðingarleysi fyrir réttindum borgaranna,“ segir formaður Pírata um tiltekið ríki.

Fjölmargir hafa ótal ranghugmyndir um þjóðfélagið. Sumar eru skemmtilegar, aðrar hvimleiðar, margar óskiljanlegar. Margir koma ranghugmyndum sínum á framfæri við aðra og þá sjaldnast í neinum efasemdartón. Breiðast þannig ranghugmyndir út, því einhverjir verða fyrir því að trúa ranghugmynd sem aðrir hafa sett fram af mikilli sannfæringu.

Þeir eru til sem búa í lögregluríki. Þar sem lögregla, öryggislögregla og jafnvel her fara sínu fram og réttindi borgaranna eru lítil sem engin í raun. Löng fangelsisvist, pyntingar og jafnvel aftökur bíða þeirra sem æmta eða skræmta undan ástandinu. Það er hætt við því að fólk í slíkri stöðu myndi gefa aleiguna og meira til fyrir tækifæri til að flytjast til opins þjóðfélags, eins og til dæmis þess íslenska.

En þar myndi þetta fólk verða fyrir sárum vonbrigðum, ef marka má einn áhrifamesta mann landsins.

Á dögunum sagði Helgi Hrafn Gunnarsson formaður Pírata, sem þriðji hver landsmaður er ákveðinn í að kjósa til valda um leið og tækifæri gefst, að hann vildi ekki að íslenska lögreglan fengi frekari heimildir til að verjast hugsanlegri hryðjuverkaógn. Skýringin var sú að „lögreglan leyfir sér nú þegar botnlaust virðingarleysi fyrir réttindum borgaranna.“

Botnlaust virðingarleysi fyrir réttindum borgaranna. Í huga íslenskra lögreglumanna hafa almennir Íslendingar sem sagt engin réttindi sem lögreglan þarf að virða.

Það er mesta furða að Helgi Hrafn gangi ennþá laus.