Þriðjudagur 17. nóvember 2015

Vefþjóðviljinn 321. tbl. 19. árg.

Samkeppniseftirlitið hefur einstæða stöðu ríkisvalds.

Það gefur út „ákvarðanir“ um fyrirtæki og þar með starfsmenn fyrirtækjanna án þess að gefa þeim kost á andmælum. Það aflar gagna, rannsakar mál, gefur út ákæru og dæmir í raun án þess að meintir sökudólgar fái að fylgjast með málarekstrinum, hvað þá koma að vörnum. Það er ógeðfellt að ríkisstofnun hafi slíkt vald yfir fólki.

Þetta fyrirkomulag er í hróplegu ósamræmi við flestar aðrar stofnanir ríkisins þar sem reynt er að gæta að eðlilegum leikreglum réttarríkisins.

Nýlega kvað Persónuvernd upp þann úrskurð að Samkeppniseftirlitið hefði brotið gegn lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga með því að birta nafn manns í ákvörðun sinni. Maðurinn hafði ekkert með starfsemi fyrirtækisins enda var hann sumarstarfsmaður í þjónustuveri þess. Engu að síður birti Samkeppniseftirlitið nafn mannsins 30 sinnum í ákvörðun sinni.

Í úrskurði Persónuverndar segir:

Birting á nafni [B] í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. […] var ekki í samræmi við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Samkeppniseftirlitinu ber að senda Persónuvernd staðfestingu um að nafn hans hafi verið afmáð eigi síðar en 25. nóvember 2015.

Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að Samkeppniseftirlitið hafi nýtt sér andmælarétt sinn í málinu. Hvers vegna nýtti Samkeppniseftirlitið sér þann rétt sem það neitar öðrum um?

Í andmælum Samkeppniseftirlitsins kemur fram ofboðslegur hroki og yfirlæti gagnvart réttindum mannsins. Það er alveg einbeitt í því að hafa mannorðið af sumarstarfsmanninum sem augljóslega hafði engin áhrif á starfshætti fyrirtækisins.