Fimmtudagur 19. nóvember 2015

Vefþjóðviljinn 323. tbl. 19. árg.

Ef innlendu metanóli væri bætt í bensínið þyrfti að flytja inn meira eldsneyti og ferðum bíleigenda á bensínstöðvar myndi fjölga.
Ef innlendu metanóli væri bætt í bensínið þyrfti að flytja inn meira eldsneyti og ferðum bíleigenda á bensínstöðvar myndi fjölga.

Uppi hafi verið hugmyndir um að framleiða metanól hér á landi til allt að 3% íblöndunar í bensín fyrir bíla. Einkafyrirtækið Carbon Recycling International sem ráðgerði slíkt skrifaði meðal annars lagafrumvarp sem Steingrímur J. Sigfússon lagði fram og fékk samþykkt vorið 2013.

Með lögunum átti að þvinga bíleigendur í viðskipti við fyrirtækið um leið og það fengi um 70 króna skattaívilnun með hverjum lítra metanóls sem því tækist að koma í bensíntaka landsmanna.

Þessi löggjöf og ríkisstyrkirnir sem henni fylgja hafa leitt til skelfilegs tjóns fyrir Íslendinga. Bíla- og vélaframleiðendur vilja ekki að að metanóli sé blandað í bensínið því það skemmi vélarhluti. Fleiri tæknilegir vankantar eru einnig á íblöndun metanóls.

Ríkisstyrkirnir hafa því nær allir runnið úr landi til kaupa á skelfilega dýrum lífolíum sem blandað er í Dieselolíu.

En væri ekki gott fyrir þjóðarbúið ef mögulegt væri að blanda innlendu metanóli í bensínið?

Eins ótrúlega og það kann að hljóma þá eykst innflutningur eldsneytis við íblöndun innlends metanóls í bensín. Þetta stafar meðal annars af því að til að gera íblöndun metanóls mögulega þarf einnig etanólíblöndun því metanólið er svo óstöðugt í bensíni.

Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna segir 10% etanólíblöndun leiða til allt að 4% aukningar eldsneytiseyðslu (L/km). Gera má ráð fyrir að bensín með 4,5% etanól og 2% metanól leiði til um 2,5% aukinnar eldsneytiseyðslu umfram eyðsluna sem óblandað bensín hefði í för með.

Blanda með 91% bensín, 3% metanóli og 6% etanóli myndi auka eyðslu í bílvél um 3,5% (L/km).  Ef gengið er út frá því að Íslendingar flytji nú inn um 193 milljónir lítra af bensíni á ári og bensínið væri svo „drýgt“ með 3% innlendu metanóli og 6% innfluttu etanóli þyrfti að auka innflutning á eldsneyti (bensíni og etanóli) um ríflega 1 milljón lítra á ári vegna hinnar auknu eyðslu. Eldneytisnotkunin í heild færi úr  193 í 200 milljónir lítra. Þar af væru 6 milljónir lítra metanól. Innflutningur færi þar með úr 193 í 194 milljónir lítra.