Helgarsprokið 1. nóvember 2015

Vefþjóðviljinn 305. tbl. 19. árg.

Slagsíðan er skýr. Hún er til vinstri hugsunar. Hún er til stjórnlyndis. Hún er til opinberra úrræða. Hún er til réttinda á hendur skattgreiðendum. Hún er til boða og banna á hendur einstaklingnum. Hún er til ofstækislegra aðgerða í umhverfismálum.
Slagsíðan er skýr. Hún er til vinstri hugsunar. Hún er til stjórnlyndis. Hún er til opinberra úrræða. Hún er til réttinda á hendur skattgreiðendum. Hún er til boða og banna á hendur einstaklingnum. Hún er til ofstækislegra aðgerða í umhverfismálum.

Ríkisútvarpið er vinstrimönnum ómetanlegt. Án þess væri vinstrimennskan í landinu aðeins svipur hjá sjón. Jafnvel við jafnt og þétt minnkandi hlustun og áhorf skiptir slagsíðan á Ríkisútvarpinu miklu máli.

Slagsíðan er nefnilega svo mikil. Hún er ekki í öllum þáttum, en hún er víða og hún er algeng. Og það sem skiptir verulegu máli í stjórnmálaþróun landsins er að hún er nær öll á sömu áttina.

Auðvitað er ekki hrópað úr viðtækjunum: Kjósið Vinstrigræna. Kjósið Samfylkinguna. Slagsíðan er ekki svo barnaleg.

En slagsíðan er skýr. Hún er til vinstri hugsunar. Hún er til stjórnlyndis. Hún er til opinberra úrræða. Hún er til réttinda á hendur skattgreiðendum. Hún er til boða og banna á hendur einstaklingnum. Hún er til ofstækislegra aðgerða í umhverfismálum.

Þeir sem koma að hljóðnemum Ríkisútvarpsins eru almennt þeirrar skoðunar að ríkið komi ekki nægilega til móts við einhvern hóp, annan en skattgreiðendur. Fátæktin er að aukast. Misskiptingin líka. Þeir sem þiggja opinberan stuðning þurfa að bíða of lengi. Sá sem verður fyrir einhverju fær ekki næga áfallahjálp. Leigjendur fá ekki nægan stuðning. Umhverfið er á heljarþröm. Í landinu er mikið kynjamisrétti, konum í óhag.

Það er almennt aldrei hugsað um að fá neinn að hljóðnemanum til mótvægis við svona málflutning.

Einn daginn er kannski tilkynnt að nú sé alþjóðlegur dagur leigjenda. Einhver leigjandi mætir í hljóðver og þylur yfir stjórnandanum að leigjendur fái ekki nægan stuðning, ekki nægar húsaleigubætur, ekki næg réttindi. Engum í Efstaleiti dettur í hug að fá einhvern annan til að tala máli skattgreiðenda eða máli húseigenda. Stjórnandanum sjálfum dettur ekki í hug að velta upp hugsanlegum sjónarmiðum slíkra fulltrúa.

Þegar einhver kemur að hljóðnemanum og kvartar yfir lágum framlögum hins opinbera eða að hann hafi þurft að bíða eða hann hafi þurft að borga eitthvað sjálfur, hvenær er þá kallað á einhvern til að tala máli skattgreiðnda? Hvenær spyr stjórnandinn hvers vegna almennir skattgreiðendur eigi að fjármagna það sem viðmælandinn vill? Hvenær er spurt hvort leggja eigi hærri nauðungargjöld á vinnandi fólk til þess að auðvelda viðmælandanum að halda myndlistarsýningu?

Þennan söng heyra hlustendur og áhorfendur Ríkissjónvarpsins flesta daga ársins. Auðvitað ekki í öllum þáttum, en þar sem slagsíðan er, þá er hún í þessa átt. Og „hollvinir“ Ríkisútvarpsins sjá ekkert að þessu.

Það væri skemmtileg félagsfræðitilraun að snúa þessu við í eitt ár, til þess að kanna viðbrögðin. Hvernig ætli hefðbundinn varðhundahópur Ríkisútvarpsins léti ef í aðeins eitt ár yrði í Ríkisútvarpinu jafn mikil slagsíða og nú, en bara í hina áttina?

Í hverjum „samfélagsþættinum“ á fætur öðrum væri farið yfir óráðsíu í opinberum rekstri. Svo væri rætt við skattgreiðanda sem þyrfti að skera niður eigin útgjöld til að eiga fyrir vaxandi skattgreiðslum. Þegar sagt yrði frá kóraferðalagi til Skandinavíu yrði tekið fram hvaða sveitarfélög hefðu styrkt ferðalagið, hvað þar væri innheimt í útsvar og hver skuldastaða sveitarfélagsins væri. Það væri rætt við menn sem hefðu ekki fengið störf, af því að stjórnmálamaður þorði ekki annað en að jafna kynjahlutföllin. Vandamál leigjenda yrðu rakin til þess að ný byggingarreglugerð hefði stóraukið byggingarkostnað, en ekki til þess að skattgreiðendur borguðu ekki enn hærri húsaleigubætur. Ríkisútvarpið skýrði rétt en ekki rangt frá eigin fjárhagsvanda og skuldasöfnun.

Sama yrði umræðuþáttum. Hannes Hólmsteinn Gissurarson og skoðanabræður hans myndu stýra þeim. Góðan dag. Réttmæti aðgerða ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hefur verið talsvert í umræðunni. Við ætlum að kryfja það í dag með góðum gestum, hingað eru komnir Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari, Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður og Óli Björn Kárason blaðamaður, velkomnir. Og svo yrði hafður með einn vinstrimaður til að gæta jafnvægis, en þess yrði gætt að það væri einhver sem hefði nýlega fengið hrós fyrir að fara gegn eigin flokki í mikilvægu máli.

Hvernig halda menn að vinstrimenn létu, ef Ríkisútvarpinu yrði beitt svona í eitt ár? Eða í einn mánuð? Eða í eina viku?

En þetta verður aldrei gert. Slagsíðan á Ríkisútvarpinu verður alltaf sú sama. Og aldrei, aldrei, verður raunverulega tekið á óráðsíunni og sóuninni í Ríkisútvarpinu.

Stjórnvöld þora ekki einu sinni að lækka útvarpsgjaldið sem lagt er á landsmenn, til þess að fjármagna þetta allt saman. Það er algerlega ótrúlegt.