Vefþjóðviljinn 306. tbl. 19. árg.
Það var á margan hátt lýsandi fyrir nútímastjórnmál að af nýlegum fundi átta forsætisráðherra og fleiri manna hér á landi skyldi fyrst og fremst teljast fréttnæmt að störfum hlaðnir leiðtogarnir hefðu reynt að setja saman legó-kubba. Eitt lykilatriði fundar þeirra var svo að þeir hittust án þess að vera með hálsbindi, sem var auðvitað mikilvægt í þágu samvinnu, friðar, samræðu, víðsýni, norðurslóða og breyttrar heimsmyndar.
Svo árangursríkur var þessi fundur að næst þegar þeir hittast munu þeir stíga stærri skref til framfara. Þannig munu þeir halda sérstaka samkomu þar sem enginn kemur með neitt í plastpoka. Um kvöldið borða leiðtogarnir svo saman og hver borðar annars leifar, til að minnka matarsóun og sýna í verki stuðning sinn við deilihagkerfið.
Hvað eiga menn að ræða á svona samkomum? Hvaða ákvarðanir ætti að vera hægt að taka þar? Hvaða raunverulegu mál eiga þessi ríki sameiginleg, sem þarf að ræða á fundi eins og þessum? Hvernig eiga raunverulegar viðræður leiðtoga fjölmargra ríkja að fara fram, með fjölmiðla allt í kring? Er við því að búast að þær geti snúist um neitt annað en hvort fundarmenn eru með bindi?
Svo vill enginn vera leiðinlegi maðurinn sem neitar að leika sér með legó-kubbana eða mætir bara með hálsbindi, þrátt fyrir fyrirskipaða stemninguna um bindisleysið.
Þeir vita að nú eru runnir upp þeir tímar að ótrúlega stór hluti kjósenda mun ráðstafa atkvæði sínu eftir einhverri tilfinningu eða stemningu, sem engar staðreyndir eða röksemdir um grundvallaratriði geta haggað.
Sá sem neitar að kubba legó-önd með forsætisráðherra Litháens er bara stífur kall sem skilur ekki nýja tíma.
Hver man ekki eftir íslenskum stjórnmálamönnum í röð að drekka „ógeðsdrykk“ hjá Sveppa?