Helgarsprokið 25. október 2015

Vefþjóðviljinn  298. tbl. 19. árg.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins tók eindregna afstöðu gegn þeirri stefnu vinstri stjórnarinnar að þvinga Íslendinga til að brenna matvælum í bílvélum.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins tók eindregna afstöðu gegn þeirri stefnu vinstri stjórnarinnar að þvinga Íslendinga til að brenna matvælum í bílvélum.

Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um umhverfis- og samgöngumál er vikið afdráttarlaust að þeim ólögum sem sem vinstri stjórnin setti á síðasta kjörtímabili um bíla og eldsneyti og hafa leitt af sér ótrúlega sóun og aukna mengun.

Afnema ber skattaívilnanir og lög um endurnýjanlegt eldsneyti frá síðasta kjörtímabili sem leiða til innflutnings á dýru lífeldsneyti á borð við etanól og jurtaolíur. Jafnframt skal afnema alla skattalega mismunun frá síðasta kjörtímabili sem ætlað var að ýta fólki úr bensínbílum yfir í dísilbíla.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins veik einnig að þessum málum í ræðu á alþingi í síðustu viku.

Annars vegar hef ég mjög miklar efasemdir um að þær kvaðir sem við höfum lögfest um umhverfisvæn íblöndunarefni í eldsneyti fyrir bíla skili þeim árangri sem að var stefnt. Ég tel að það sýni sig að þetta leiði fyrst og fremst til þess að eldsneytið verði dýrara og takmörkuð trygging sé fyrir því að íblöndunarefnin sem slík séu endilega jafn umhverfisvæn og menn gengu út frá þegar lögunum var breytt um þetta efni. Ef svo er erum við bara að auka eldsneytiskostnaðinn með þessu. Þetta vil ég að minnsta kosti skoða. Hitt er að við erum með misjafnar álögur á dísil annars vegar og bensín hins vegar. Það virðist vera gengið út frá því að dísill sé umhverfisvænna eldsneyti en bensín. Ég tel að fyrir því séu mjög hæpin rök. Það kann vel að vera að við bruna á dísilolíu losni um minna af koltvísýringi en á hitt ber einnig að líta að það falla til mengandi agnir við bruna á dísli, sem eru líka mengandi og ekki síst slæmar fyrir þéttbýli. Þá situr eftir spurningin: Hvers vegna á að vera með einhverja ívilnun fyrir dísil ef hann mengar á heildina litið jafn mikið ef ekki meira en bruni á bensíni?

Sigríður Á. Andersen, Frosti Sigurjónsson og fleiri þingmenn stjórnarflokkanna hafa þegar lagt fram frumvarp sem tekur á fyrra atriðinu sem Bjarni nefndi sem sérstakt íhugunarefni í þingræðu sinni.

Það var alveg makalaus árangur hjá hreinu vinstri stjórninni að allar lagabreytingar hennar varðandi bíla og eldsneyti hafi ekki aðeins leitt til aukina útgjalda heldur hafi öll þessi græna neyslustýring hennar leitt til óhreinni útblásturs frá bílum auk þess að stuðla að því að matjurtum sé brennt í bílaflota Íslendinga. Íblöndun etanóls í bensín leiðir jafnframt til aukinnar eyðslu (L/km) í bílvélum og fleiri ferða á bensínstöðvar.

Og allt var þetta réttlætt með því að bílar væru helsta uppspretta koltvísýrings af manna völdum á Íslandi þegar staðreyndin er að einungis má skrifa um 4% útblástursins á fólksbílaflotann.