Mánudagur 26. október 2015

Vefþjóðviljinn 299. tbl. 19. árg. 

Þeir eru til sem finnst Íslendingar ekki nægilega mótmælasinnaðir. Þeir segist vera á móti hlutum en geri ekkert í því. Hugtök eins og „mótmæli“ og „aktívismi“ séu næstum því meiðyrði í íslensku þjóðfélagi og þeir sem láti uppi skoðanir gegn ráðandi viðhorfum séu litnir hornauga.

Það er mjög ofmælt að „mótmæli“ og „aktívismi“ séu alls staðar talin vera meiðyrði. Íslenska Ríkisútvarpið er til dæmis ákaflega áhugasamt um bæði „mótmæli“ og „aðgerðasinna“. Af fréttum þess má iðulega skilja að menn megi gera næstum hvað sem er, svo lengi sem þeir séu „að mótmæla“.

En hvaða „aðgerða“ og „aktívisma“ er þörf í lýðræðisríki?

Í lýðræðisríki eiga menn að vinna hugmyndum sínum framgang með rökræðum. Með því að útskýra sitt mál og reyna að færa fyrir því sterkari rök en andstæðingarnir hafa fyrir sínum hugmyndum. Það er sjálfsagt að menn séu virkir í því að kynna sjónarmið sín og röksemdir fyrir þeim. Slíkar „aðgerðir“ eru sjálfsagðar í lýðræðisríki. Það er hins vegar ekki sjálfsagt að reyna að knýja málstað sinn fram með ofstæki og látum, sem ekki koma eðlilegum stjórnmálaumræðum við.

Þeir sem öskra, þeyta lúðra, stappa niður fótum, kasta eggjum, eyðileggja vinnufrið, reyna að hrópa niður ræðumenn eða hertaka ræðupúlt með langlokum þegar fundartími er takmarkaður, gefa auðvitað til kynna að þeir hafi í raun ekki haldbær rök fyrir skoðunum sínum. Skýrt dæmi var ruddaskapurinn sem sýndur var á Austurvelli 17. júní þegar forsætisráðherra futti ræðu sína, en mörg önnur dæmi mætti nefna um fólk sem vill þagga niður í talsmönnum annarra sjónarmiða og þannig einnig sjá til þess að aðrir þori ekki að taka undir með þeim. Slíkt er oftast vísbending um að menn treysti sér í raun ekki í efnislegar umræður.

Það er umdeilanlegt hvort „mótmæli“ og „aktívismi“ þyki almennt vera skammaryrði á Íslandi. En það er líka athyglisverð spurning hvort rétt sé, að þeir sem tala gegn ráðandi skoðunum á hverjum tíma séu litnir hornauga.

Aðgerðasinnar gera ýmislegt. Viðskiptablaðið segir frá því að aðgerðasinni nokkur hafi ætlað sér að fara að gröf Karls Marx en orðið bálreiður þegar hann komst að því að þar þurfti að greiða aðgangseyri. Hann frétti það svo hjá góðgerðasamtökunum að Karl Marx hefði sjálfur ákveðið að kaupa sér legstað í einkareknum kirkjugarði í stað þess að nýta sér þá kosti sem ríkið hafi haft í boði á þeim tíma.

Hann hefur auðvitað ekki viljað sameinast öreigunum í legstað hins opinbera.