Vefþjóðviljinn 298. tbl. 19. árg.
Vinstristjórn Jóhönnu og Steingríms vann mörg óþarfaverk. Sum voru áberandi, eins og aðildarumsókn að Evrópusambandinu og ótal tilraunir til að fá Icesave-reikninga Landsbankans lagða á íslenska skattgreiðendur.
En hún vann líka mörg smá verk sem líka voru slæm þótt þau færu ekki hátt. Eitt var að setja í lög að borgarfulltrúum í Reykjavík skyldi fjölgað úr 15 í að minnsta kosti 23. Breytingin verður að óbreyttu að veruleika við næstu borgarstjórnarkosningar.
Þannig er gert ráð fyrir borgarfulltrúum fjölgi um að minnsta kosti átta við næstu kosningar. Fyrir utan hvað slíkt myndi gera starf borgarstjórnar óskilvirkara yrði um mikinn kostnað að ræða fyrir borgarbúa. Ef þriggja mánaða biðlaunarétti er bætt við nýju fulltrúana átta má ætla að á einu kjörtímabili þyrfti að greiða aukalega um 400 mánaðarlaun borgarfulltrúa vegna fjölgunarinnar. Ofan á það bætist svo margvíslegur annar kostnaður vegna hvers og eins.
En þessi fjölgun er ekki óhjákvæmileg. Nú hafa Sigríður Á. Andersen og sjö aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins lagt fram frumvarp um að þessi hækkun verði felld úr lögum, og komi því ekki til framkvæmda.
Þetta litla frumvarp Sigríðar og félaga er örlítið dæmi um raunveruleg stjórnmál, sem svo allt of lítið virðist um þessi misserin.