Föstudagur 23. október 2015

Vefþjóðviljinn 296. tbl. 19. árg.

Ráðherrar héldu í vikunni mikinn fund um húsnæðismál og leiðir til þess að lækka byggingarkostnað húsnæðis. Árum saman hefur verið lagt til að dregið verði úr þeim kröfum sem byggingarreglugerð leggur á húsbyggjendur og ráðherrar virðast loksins búnir að frétta af því. Eftir tæplega ár verður því líklega skipaður starfshópur og hann mun einhvern tíma löngu síðar skila drögum sem ekki verða framkvæmd heldur „send til umsagnar“.

En það merkilegasta af fundinum voru kenningar Eyglóar Harðardóttur, sem er ráðherra „húsnæðismála“.

Samkvæmt fréttum  lagði hún til að þeir sem kæmu að húsbyggingum lækkuðu kostnað sinn um 1% hver. Það myndi hafa mikil áhrif:

Eygló segir að 10 til 15 aðilar komi að byggingu húss. Ef hver og einn væri með jafnt hlutfall í byggingarkostnaðinum og gæti lækkað kostnað hjá sér um 1% þá myndi það þýða heildarlækkun upp á 10 til 15%.  Hún segir að vel hafi verið tekið í þessa hugmynd á fundinum.

Með öðrum orðum: Hús kostar þúsund krónur í byggingu. Tíu manns koma að byggingunni og kostnaður hvers og eins er 100 krónur. Hver og einn lækkar kostnaðinn um 1%. Það er ein króna á mann.

Svo situr Eygló Harðardóttir í húsnæðismálaráðuneytinu og veltir fyrir sér hvað tíu sinnum ein króna séu margar krónur.

Raunar eiga þessir útreikningar Eyglóar við á fleiri sviðum. Í þingflokki Framsóknarflokksins sitja 19 menn. Ef huldumaður Stefáns Valgeirssonar situr einnig fundina sem áheyrnarfulltrúi eru þar 20. Ef hver þeirra styttir ræður sínar á fundinum um 5% næst 100% stytting umræðna á fundinum, sem myndi gera hann mun skilvirkari.