Fimmtudagur 22. október 2015

Vefþjóðviljinn 295. tbl. 19. árg.

Skjáskot af Os.is. Eins og menn geta kynnt sér á vef Orkustofnunar er jarðefnaeldsneyti jafnvel orðið stór hluti af uppruna raforku á Íslandi!
Skjáskot af Os.is. Eins og menn geta kynnt sér á vef Orkustofnunar er jarðefnaeldsneyti jafnvel orðið stór hluti af uppruna raforku á Íslandi!

Það er athyglisvert að lesa skrif tveggja reyndra stjórnmálamanna um loftslagsbreytingar á leiðaraopnu Morgunblaðsins í dag. Þar eru á ferð Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra og Hjörleifur Guttormsson fyrrverandi iðnaðarráðherra.

Grein Sigrúnar ber yfirskriftina „Unnið að verkefnum í loftslagsmálum.“ Þó nefnir Sigrún ekki neitt sem máli skiptir í þessum efnum. Birkihríslur, matarafgangar og „tækniþróun sem grillir í“ eru hennar „verkefni í loftslagsmálum.“

Hjörleifur er í sömu sporum. Honum þótti gaman að sækja fund fyrirmenna um málið í Hörpunni á dögunum. Hann hossar Ólafi Ragnari Grímssyni forseta fyrir skipulagninguna. Annað hefur Hjörleifur ekki til málanna að leggja.

Að vísu má segja að með því að skrifa nógu margar svona greinar um ekki neitt tækist þeim að binda talsvert kolefni í dagblaðapappír.

Þessi skrif ráðherranna eru raunar í stíl við „tillögur“ Náttúruverndarsamtaka Íslands um aðgerðir í loftslagsmálum. Þær eru engar. Núll.

Það kemur auðvitað ekki á óvart. Nýir orkugjafar, sem geta keppt við jarðefnaeldsneytið, hafa því miður ekki komið fram þrátt fyrir mikla leit og heilabrot helstu hugsuða. Olía, kol og gas anna enn 90% af orkunotkun mannkyns. Hvorki Sigrún, Hjörleifur, Árni FinnssonÓmar Ragnarsson þurfa því að skammast sín fyrir að geta ekki bent á nýja orkugjafa.

En þau mega þá heldur ekki láta eins og það sé aðeins spurning um pólitískan vilja að skrúfa niður í styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu. Lausnin á þessu máli liggur einfaldlega ekki fyrir. Og það er ekki líklegt að hún spretti upp af hinu pólitíska sviði. Þvert á móti hafa pólitískar tilraunir í þessum efnum með Dieseldekri og bruna matvæla í bílvélum gert illt verra.

Skífusímar tengdir saman með koparþræði fengu ekki samkeppni frá snjallsímum vegna þess að stjórnmálamenn æsktu þess í blaðagreinum. Einkaleyfisleigubílar fengu ekki samkeppni frá Uber vegna fundarhalda Hollande og Grímsson í Hörpunni. Nýir hagkvæmir orkugjafar (eða aðrar leiðir til að draga úr koltvísýringi í andrúmsloftinu) munu heldur ekki verða klappaðir upp af stjórnmálastéttinni.