Helgarsprokið 18. október 2015

Vefþjóðviljinn 291. tbl. 19. árg.

Það eru ýmsir hagsmunir undir í loftslagsmálum.
Það eru ýmsir hagsmunir undir í loftslagsmálum.

François Hollande forseti Frakklands var hér á landi í síðustu viku og tók þátt í ráðstefnu um málefni svonefndra norðurslóða. Á forsíðu Morgunblaðsins í gær var haft eftir forsetanum að heimurinn þyrfti „að horfast í augu við veruleikann“ í loftslagsmálum. Þar þyrfti að grípa „til aðgerða“.

Það getur verið ágætt að horfast í augu við veruleikann, einkum ef veruleikinn hefur augu til að horfa á móti. En hver er veruleikinn? Vita menn það? Getur kannski verið að reynt sé að knýja fram eina viðurkennda útgáfu af veruleikanum en önnur sjónarmið séu þar bannfærð með virkum hætti?

Philippe Verdier heitir maður og hefur undanfarin ár verið einn þekktasti veðurfréttamaður Frakklands og starfar á sjónvarpsstöðinni France 2. Á hverju kvöldi horfðu að jafnaði fimm milljónir Frakka á veðurfréttir hans.

Á dögunum gaf Verdier svo út bók, Climat Investigations, þar sem hann fjallar um loftslagsmál og er ómyrkur í máli. Hann segir að málaflokkurinn hafi verið tekinn í gíslingu. Áróðursvél sé rekin til þess að halda fólki í ótta. Áhrifamiklir sérfræðingar og stjórnmálamenn haldi afvegaleiðandi gögnum að almenningi. Gögnum, sem bendi til annarra niðurstaðna, sé blygðunarlaust eytt. Allt kapp sé síðan lagt á að koma í veg fyrir að menn segi frá þessu opinberlega.

Og hver urðu viðbrögð hinnar ríkisreknu sjónvarpsstöðvar, France 2? Jú, hún hefur nú sagt Verdier að koma ekki til vinnu. Hann hefur nú verið neyddur í „leyfi“.

Phlippe Verdier hefði betur horft á og kynnt þann veruleika sem stjórnmálamenn vilja að fólk sjái. Þá hefði hann kannski ekki fundið á eigin skinni hversu opin og frjáls umræðan er, þar sem meðvitaðir Vesturlandabúar ráða ferðinni og hafa fyrir löngu ákveðið niðurstöðurnar.

Sjálfur segir Verdier að hann hafi ákveðið að skrifa bókina í júní 2014 þegar Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, hafi kallað veðurfréttamenn landsins fyrir sig og hvatt þá eindregið til að nefna mikla loftslagshættu í spám sínum. Átta dögum síðar hefði utanríkisráðherrann birst á forsíðu tímarits, í gervi veðurfréttamanns, undir fyrirsögninni „500 dagar til að bjarga plánetunni“.

Hita er hægt að mæla. Allar líkur eru á því að loftslag á jörðinni hafi á síðustu árum farið almennt hlýnandi. Slíkt hefur áður gerst og sveiflast talsvert til. Hiti hefur áður verið hærri en nú og það löngu áður en maðurinn vélvæddist eða framdi önnur voðaverk. Að því leyti væri sjálfsagt nær að tala um endurhlýnun jarðar en hlýnun hennar, en það breytir ekki því að loftslagið hefur að öllum líkindum hlýnað frá því sem var fyrir nokkrum áratugum.

En það síðan önnur spurning hvort eða að hve miklu leyti sú hlýnun er af mannavöldum.

Það er raunar merkilegt hversu mikla áherslu margir leggja á að þagga niður í þeim sem ekki fylgja hinni opinberu kenningu um að maðurinn valdi hlýnun jarðarinnar. Þeir eru kallaðir „afneitarar“ og iðulega gefið í skyn að þeir séu á launum hjá einhverjum öflum sem græði á mengandi starfsemi. Ekkert sé að marka niðurstöður þeirra, því fjárhagslegir hagsmunir hafi ráðið för.

Menn geta raunar haft ýmsa hagsmuni.

Taka má sem einfalt dæmi umræðu um orsakir hlýnunar jarðar.

Ef menn gefa sér að loftslag á jörðinni sé almennt að hitna þessa áratugina má draga einhverja af þessum ályktunum:

Í fyrsta lagi, loftslagið er að hitna og það er fyrst og fremst af mannavöldum.

Í öðru lagi, loftslagið er að hitna, að talsverðu leyti af mannavöldum en aðrir þættir skipta einnig talsverðu máli.

Í þriðja lagi, loftslagið er að hitna, en athafnir manna hafa í raun sáralítil eða engin áhrif þar á. Þetta eru einfaldlega sveiflur sem aðrir og stærri kraftar valda og við höfum ekkert vald á.

Er ekki augljóst að það skiptir verulegu máli fyrir bæði stjórnmálamenn og „vísindasamfélagið“ hvaða niðurstaða verður almennt viðurkennd?

Ef þriðja niðurstaðan verður viðurkennd, þá er ekkert við þessu að gera. Auðvitað þarf að bregðast við afleiðingum hlýnunarinnar, en þær verða varla áþreifanlegar fyrir þorra fólks nema þær haldi áfram í nokkra áratugi. Ef niðurstaðan er sú að athafnir mannanna breyti engu, þá þarf ekki samfelldar rannsóknir, þá þarf ekki ráðstefnur, þá þarf ekki alþjóðlega sáttmála, þá þarf ekki alþjóðlegar reglur, þá þarf ekki baráttusamtök gegn hlýnun jarðar. Og þá verður ekki ástæða fyrir stjórnmálamenn til að búa til nýja umhverfisskatta, leggja á kolefnisgjöld og selja kvóta.

Ef önnur hvor hin skýringin verður viðurkennd horfir málið allt öðru vísi við. Þá verður að bregðast strax við. Þá verður að halda ráðstefnur. Þá verður að styrkja umhverfisvæna starfsemi. Þá verður að skattleggja aðra. Þá verða stjórnmálamenn að láta til sín taka. Banna eitt, leyfa annað. Mæta á tilkomumikla staði og horfa áhyggjufullir á bráðnaðan ísjaka, með ljósmyndara allt í kring.

Vísindamaður sem framkvæmir rannsókn og kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé hætta á ferðum, eða að ekki sé á manna færi að gera neitt í hættunni, hann fær líklega ekki styrki til frekari rannsókna. En ef hann telur mikla hættu á ferðum og að grípa verði til alls kyns ráðstafana, þá er líklegra að hann verði einmitt fenginn til að vinna frekari rannsóknir. Og sitja í starfshópum og tala á ráðstefnum.

Ef hlýnun jarðar er ekki af mannavöldum, hvernig ætla stjórnmálamenn þá að réttlæta umhverfisskattana sína? Og stjórnmálamenn hugsa um fleira en skatta og fjármál. Stjórnmálamaður sem stendur höllum fæti óskar þess helst að landið fái sameiginlegan óvin sem allir eigi að berjast gegn. Þar er hlýnun jarðar tilvalin, en þá þarf hún að vera af mannavöldum, því annars er ekkert til þess að berjast gegn. Það er erfitt að fylkja liði gegn sólinni.

Það er augljóst að margir hafa mjög mikla hagsmuni af því að fólk sé almennt sannfært um að hlýnun jarðar sé af mannavöldum. Það er líka augljóst, að þetta gerir það ekki að verkum að þeir hafi rangt fyrir sér, sem segja að svo sé. Hungursneyð er raunveruleg þótt margir maki krókinn á baráttunni gegn henni. Menn geta haft rétt fyrir sér, þótt þeir hafi einnig fjárhagslega hagsmuni af réttri niðurstöðu. Það er hins vegar barnaskapur að halda að einungis þeir, sem efast um að hlýnun jarðar sé af mannavöldum, kunni að hafa hagsmuni af málflutningi sínum eða niðurstöðum.

Þegar kemur að umræðum um hlýnun jarðar og orsakir hennar, er þá ekki rétt að aðhyllast frjáls skoðanaskipti en forðast uppnefni og óþarfar aðdróttanir?