Laugardagur 17. október 2015

Vefþjóðviljinn 290. tbl. 19. árg.

Í vikunni varð nokkuð upphlaup vegna þess að eigendur Símans höfðu selt stjórnendum félagsins og einhverjum fleirum hluti í félaginu á lægra verði fyrr á árinu en bauðst í almennu útboði sem fram fór nýlega. Þeir sem keyptu fyrr á árinu geta ekki selt bréfin fyrr en að ákveðnum tíma liðnum. En þeir sem keyptu í almenna útboðinu geta hins vegar selt þegar þeim sýnist.

Enginn hefur því „grætt“ neitt ennþá á kaupum í Símanum og engin leið að segja fyrir um hverjir hagnast mest (eða tapa minnst) á þessum viðskiptum. Það virðist alveg gleymt að menn geti tapað á hlutabréfakaupum enda eru liðin alveg sjö ár síðan íslenskur hlutabréfamarkaður nánast þurrkaðist út.

Það flækir þetta mál reyndar aðeins að ríkissjóður á 13% hlut í eiganda Símans sem er Arion banki. Enginn getur þó fullyrt að þessi leið við söluna á Símanum hafi ekki verið sú besta fyrir bankann og þar með alla eigendur hans, ríkið þar með talið.

En lausnin á þeirri flækju er auðvitað að ríkið selji hlut sinn í bankanum. Það sýnist betri og endanlegri lausn  en að stóryrtir stjórnmálamenn reyni að hafa áhrif á hvernig aðrir eigendur bankans fara með eigur sínar.