Föstudagur 16. október 2015

Náttúruverndarsamtök Íslands hafa engin svör við því hvernig Íslendingar eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% sem þau krefjast þó.
Náttúruverndarsamtök Íslands hafa engin svör við því hvernig Íslendingar eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% sem þau krefjast þó.

Náttúruverndarsamtök Íslands fengu Gallup nýverið til að spyrja „Hversu mikla eða litla þörf telur þú á því að íslensk stjórnvöld grípi til aðgerða til að draga úr losun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum?“

Svarhlutfall var aðeins 61% en af þeim sem tóku afstöðu töldu aðeins 12% litla þörf á því að stjórnvöld grípi til aðgerða en 67% mikla þörf á því.

En það eru ekki þessar niðurstöður sem koma á óvart heldur tillögur Náttúruverndarsamtaka Íslands um aðgerðir sem stjórnvöld gætu gripið til í þessu skyni.

Náttúruverndarsamtök Íslands hafa nefnilega engar tillögur í þeim efnum. 

Þau vilja að vísu að Ísland setji sér það markmið að draga úr losun um 40% fyrir árið 2030 og flaggi því á fundi fyrirmenna um málið í París í desember. En hvernig á að gera það? Því geta Náttúruverndarsamtök Íslands ekki svarað.

Það eina sem þau leggja til í nýrri grein um málið á vef sínum er að skip skuli fá rafmagn úr landi í stað þess að brenna olíu þegar þau liggja við bryggju. Eins og kom nýlega fram í svari umhverfisráðherra við fyrirspurn á alþingi ber sjávarútvegur ábyrgð á um 3% af heildarlosun af mannavöldum hér á landi. Hvað ætli ljósavélar skipa og báta í landlegu séu með mikinn hlut af því? Í allra mesta lagi einn þúsundasta af þeirri olíu sem skipin brenna. Þar með er komin fram tillaga frá Náttúruverndarsamtökum Íslands um að draga úr losun Íslendinga um 0,003%.

Gott og vel. Mjór er mikils vísir. Þá eiga þau bara eftir að svara því hvar eigi að virkja til að ná í þetta rafmagn og hvar háspennilínurnar megi liggja.