Mánudagur 19. október 2015

Vefþjóðviljinn 292. tbl. 19. árg.

Í nýlegu viðtali við Viðskiptablaðið mun Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafa talað á þá leið að hann ætlaði ekki í framboð til Alþingis. Einhverjum fjölmiðlum fannst þetta fréttnæmt.

Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2002 var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóraefni R-listans. Hún var spurð hvort hún ætlaði í þingframboð vorið eftir. Hún neitaði því algerlega. Hún sagðist verða kyrr í ráðhúsinu nema hún myndi „hrökkva upp af“.

Og einn borgarfulltrúa R-listans skrifaði sama haust blaðagrein um málið. Sá borgarfulltrúi hafði verið tilnefndur á framboðslistann af Ingibjörgu Sólrúnu einni, því R-listinn var svo mikið framboð fólksins að borgarstjóraefnið, sem hvergi þurfti að fara í prófkjör, fékk að velja annan frambjóðanda með sér, sem þurfti ekki að fara prófkjör heldur.

Þessi borgarfulltrúi, sem valinn var af Ingibjörgu Sólrúnu, heitir Dagur B. Eggertsson, og í grein í Morgunblaðinu í september 2002 skrifaði hann: „Ástæða þess að ég tel nær útilokað að Ingibjörg Sólrún fari fram til Alþingis er einföld. Skýrar yfirlýsingar hennar um hið gagnstæða í borgarstjórakosningunum í vor. Það eru ekki aðeins pólitískir andstæðingar sem vilji höggva í trúverðugleika hennar sem spyrja hvort þær yfirlýsingar standi ekki heldur einnig margt af harðasta stuðningsfólki hennar. Þessi spurning skiptir lykilmáli þar sem pólitískur styrkur Ingibjargar Sólrúnar byggist ekki síst á trúverðugleika.“

Ingibjörg Sólrún efndi svo þetta fyrirheit sitt þannig að hún fór í framboð til alþingis næsta vor. Settist í baráttusæti Samfylkingarinnar, án prófkjörs, og náði glæsilegu kjöri sem varaþingmaður. Hún varð svo þingmaður þegar Bryndís Hlöðversdóttir var óvænt ráðin til Háskólans á Bifröst og lét af þingmennsku. Dagur B. Eggertsson taldi trúverðugleika Ingibjargar ekki hafa beðið hnekki af þessu.

Dagur B. Eggertsson sá ekkert athugavert við framgöngu Ingibjargar Sólrúnar árið 2002. Ætli hann meini meira sjálfur með orðum sínum?