Vefþjóðviljinn 281. tbl. 19. árg.
Nýverið kom út bókin Ecofundamentalism: A Critique of Extreme Environmentalism eftir Rögnvald Hannesson, prófessor emeritus í auðlindahagfræði í Viðskiptaháskólanum í Björgvin. Rögnvaldur er afkastamikill höfundur sex bóka og um 100 fræðigreina í ýmsum tímaritum.
Líkt og nafn bókarinnar bendir til kveður hér við annan tón en jafnan þegar umhverfismál eru til umræðu. Rögnvaldur færir rök fyrir því að umhverfisverndarhreyfingin hafi að ýmsu leyti farið út af sporinu þótt þar sé misjafn sauður í mörgu fé. Hann ber umhverfisverndarhyggjuna saman við sósíalismann og finnur þar ýmislegt sameiginlegt en margt ólíkt einnig. Að því búnu skoðar hann afstöðu umhverfisverndarsinna til sjálfbærni, líffræðilegrar fjölbreytni, orkumála, hlýnunar andrúmsloftsins, fjölgunar mannkyns og nýtingar fiskistofnanna.
Félagsvísindasvið og hagfræðideild Háskóla Íslands standa ásamt RNH að ráðstefnu um „Umhverfisvernd og auðlindanýtingu“ fimmtudaginn 8. október 2015 kl. 16.30–18 í hátíðasal Háskóla Íslands. Ráðstefnan er til heiðurs Rögnvaldi. Daði Már Kristófersson kynnir heiðursgestinn. Rögnvaldur flytur síðan sérstakan hátíðarfyrirlestur. Þá bregðast við þeir Bengt Kriström, prófessor í auðlindahagfræði í Umeå-háskóla í Svíþjóð, og Julian Morris, forstöðumaður fræðilegra rannsókna í Reason-stofnuninni í Bandaríkjunum. Eftir það verða frjálsar umræður og fyrirspurnir, og að lokum mælir Rögnvaldur nokkur orð. Móttaka er á staðnum að ráðstefnunni lokinni. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.