Fimmtudagur 8. október 2015

Vefþjóðviljinn 282. tbl. 19. árg.

Eins og dyggir notendur Ríkisútvarpsins vita hafa þingmenn Bjartrar framtíðar lagt til á þingi að „hefndarklám“ verði gert refsivert. Slíkt frumvarp lögðu þeir til í fyrra og aftur um daginn. Ríkisútvarpið hefur margsinnis sagt frá þessu, bæði í fréttum og fréttaskýringarþáttum. Berist „hefndarklám“ í tal í fréttum eða viðtölum er því hnýtt við að þingmenn Bjartrar framtíðar hafi nú lagt fram frumvarp til að taka á þessu. Þeir sem hafa áhyggjur af „hefndarklámi“ hafa margoft fengið að heyra að lausnin sé á næsta leyti. Björt framtíð er búin að leggja fram frumvarp.

Staðreyndin er hins vegar sú að „hefndarklám“ er refsivert og hefur verið það árum saman.

Önnur staðreynd er svo sú, að ef frumvarp Bjartrar framtíðar yrði samþykkt þá myndi refsiramminn við „hefndarklámi“ minnka frá því sem nú er. Refsiramminn er fjögur ár en yrði tvö ár ef frumvarp Bjartrar framtíðar yrði samþykkt.

Fréttin sem svo oft er sögð, „Þingmenn Bjartrar framtíðar vilja að hefndarklám verði refsivert“, ætti því í raun að hljóma: „Þingmenn Bjartrar framtíðar leggja til að refsingar við hefndarklámi verði vægari.“

Í vikunni var sagt frá því að maður nokkur hefði verið dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir brot gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni, meðal annars að setja nektarmyndir af henni á facebook.

Áður hefur Hæstiréttur dæmt mann í fangelsi fyrir „hefndarklám“, eins og komið hefur fram í fjölmiðlum

Ekki er þó víst að þetta dragi úr ákefð Bjartrar framtíðar við að leggja fram frumvarpið, sem allir nema hún og fréttastofa Ríkisútvarpsins ættu geta skilið að gerir „hefndarklám“ ekki refsivert, heldur mildar refsirammann frá því sem nú er.

Ekki er heldur víst að ítrekaðir dómar yfir mönnum sem fremja „hefndarklám“ verði til þess að fréttamenn Ríkisútvarpsins fari að skilja að „hefndarklám“ er refsivert.

Á þessum fréttaflutningi ber auðvitað enginn ábyrgð, ekki frekar en öðru sem gerist í Efstaleiti 1.

Og aldrei þora þingmenn og ráðherra að lækka útvarpsgjaldið.