Vefþjóðviljinn 280. tbl. 19. árg.
Það er sláandi að heyra hvað InDefence hópurinn vill gefa kröfuhöfum föllnu bankanna mikinn afslátt.
Krafa InDefence er að kröfuhafarnir greiði 39% af eigum sínum til íslenska ríkisins. Það eru ekki nema tæp 39% af því sem 99% skattur gæti skilað.
Nú verður InDefence að fara að svara því hvers vegna félagsskapurinn vill veita erlendu kröfuhöfunum 60% afslátt af eigum þeirra. Hvað gengur InDefence til með þessu?
Hefur InDefence reiknað hvaða áhrif það hefur á lífskjör almennings í framtíðinni ef farið verður að hugmynd samtakanna um að kröfuhafarnir fái 60% afslátt? Hvers vegna vilja samtökin að hundruð milljarða streymi úr landi? Hvers vegna?
Hér er um verulegar upphæðir að ræða, sem svara til nánast alls vöruútflutnings frá Íslandi árin 2013 til 2014, nálægt fjórföldu virði Landsvirkjunar skv. mati fjármálaráðherra í ársbyrjun 2013 og 100 sinnum hærri upphæðar en lífeyrissjóðunum var leyft að fara með úr landi á þessu ári.
Hvers vegna vill InDefence gefa þessar fjárhæðir eftir?
Varla eru samtökin með áhyggjur af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar?