Vefþjóðviljinn 271. tbl. 19. árg.
Síðustu árin hafa frasar verið algengir í stjórnmálaumræðunni. Einn er að einhver sé „maður að meiri“. Þá er hann yfirleitt búinn að gefast upp. Búinn að gefast upp á því að verja sig eða rökstyðja sitt mál og samþykkir allt sem andstæðingarnir segja, í þeirri von að með uppgjöf ljúki bardaganum.
Eitt er að menn sem í raun eru rökþrota viðurkenni það og skipti í raun um skoðun. Hafi menn í grundvallaratriðum rangt fyrir sér, þá er ekki ástæða til að áfellast þá fyrir að viðurkenna það.
Hvimleiðara er þegar menn gefast upp, bara af því að þeir eru uppgefnir. Það getur þó verið mannlegt að vilja losna undan árásum, þegar þær hafa staðið lengi og af mikilli ósanngirni og heift. En samt er betra að menn berjist, þegar þeir mega vita að málstaður sinn er mun betri en gefið er til kynna.
Enn verra er hins vegar þegar menn telja sér trú um að uppgjöfin sé nauðsynleg, jafnvel skynsamleg. Að það sé svo mikil krafa um uppgjöf, auðmýkt og að viðurkenna mistök, að menn verði að gera sem mest af því. Eftir bankahrunið var mikil krafa um að menn viðurkenndu mistök, bara einhver mistök. Sumir stjórnmálaflokkar töldu sér trú um að þetta væri alveg nauðsynlegt. Mánuðum og jafnvel árum saman báru þeir ekki hönd fyrir höfuð sér heldur létu hverskyns árásum ómótmælt, í þeirri von um að verða þó ekki sakaðir um að gangast ekki við mistökum.
Ein afleiðing þessa er sú að fjölmargir af yngri kynslóðinni, fólk sem hefur skiljanlega ekki fylgst með stjórnmálum nema hálfan eða einn áratug, búa fyrst og fremst að þessari mynd af þessum flokkum. Og þessu unga fólki er því fjarlæg hugmynd að kjósa þessa sömu flokka.
Á dögunum ætlaði borgarstjórnarmeirihluti vinstrimanna, Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstrigrænna og Bjartrar framtíðar, að láta til sín taka í málum fyrir botni Miðjarðarhafs. Nokkrum dögum síðar ákvað hann að draga allt til baka. Var hann þá á fáum dögum búinn að segja að málið hefði verið undirbúið í heilt ár og að það hefði verið kveðjugjöf til Bjarkar Vilhelmsdóttur sem var að hætta í borgarstjórn. Stuðningsmenn meirihlutans reyna að láta umræðuna snúast um að meirihlutinn hafi unnið einstætt afrek, með því að viðurkenna mistök sín. Það hafi verið straumhvörf í stjórnmálasögunni.
Tónlistarmaðurinn Sverrir Stormsker, skrifaði um þetta í Morgunblaðið um helgina. Hann lítur á málið aðeins öðrum augum:
Sú góða dama. Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, gengur svo langt að segja að Dagur hafi hvorki meira né minna en „brotið blað í íslenskri pólitík með því að viðurkenna að honum og meirihlutanum hafi orðið á mistök…“ og bætir við: „Þetta er það sem við höfum verið að kalla eftir.“
Já. Akkúrat. Svona viljum við hafi stjórnmálamennina. Þeir eiga að brjóta blöð og helst lög líka. Þeir eiga að klúðra hlutunum big tima, reyna svo að klóra sig útút vandanum og kenna öðrum um, hlaupa úr einu lygahorninu í annað og neyðast svo til að viðurkenna gópsku sína og stjarnfræðilegt dómgreindarleysu og muldra svo afsökunarbeiðni oní hálsmálið og málið dautt.
Hvernig er hægt að kalla eitthvað „mistök“ sem hefur verið í undirbúningi mánuðum saman með lögfræðingum og innkaupastjórum og öllu tilheyrandi? Það eru ekki „mistök“. Það er ásetningur. Einbeittur brotavilji.
Katrín Júl hefði því frekar átt að segja að Dagur hefði „brotið blað í íslenskri pólitík með því að viðurkenna að honum og meirihlutanum hafi orðið á ásetningsbrot.“
En það hefði kannski ekki komið eins vel út fyrir samfólin.