Þriðjudagur 29. september 2015

Vefþjóðviljinn 273. tbl. 19. árg.

Í lögum um Ríkisútvarpið er ákvæði eitthvað á þá leið að það skuli gæta jafnræðis í umfjöllun sinni um menn og málefni.

Er það nýtt sem röksemd fyrir því að skattgreiðendur fjármagni slíka stofnun.

Á laugardaginn var skipan hæstaréttardómara til umfjöllunar í Ríkisútvarpinu en þrír hafa sótt um lausa stöðu og til þess bær nefnd taldi fara best á því að einn þeirra yrði skipaður. Sá er ekki bara karl heldur heitir það líka.

Fyrir í hæstarétti eru 8 karlar og 1 kona. Því eru uppi kröfur um að ráða skuli konur í réttinn þar til þær verða eins nálægt því að vera helmingur réttarins og frekast er unnt.

Í Vikulokum Ríkisútvarpsins þennan laugardagsmorgun voru fjórir viðmælendur, fjórar konur, og allar voru þær hallar undir þá skoðun að skipa ætti dómara eftir kynferði í hæstarétt og að nota bæri kynjakvóta til þess arna.

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins var svo rætt við tvær konur sem voru þessarar skoðunar.