Vefþjóðviljinn 270. tbl. 19. árg.
Mörgum finnst eflaust eins og trúin skipi nú lægri sess á Íslandi en áður. Reglulega eru sagðar fréttir af því hversu margir hafi sagt sig úr þjóðkirkjunni, Ríkisútvarpið hefur af útvarpstæknilegum ástæðum hætt að senda út „orð kvöldsins“ en í staðinn útvarpað jafn löngum hugleiðingum Ævars Kjartanssonar og í Reykjavík hefur borgarstjórnin komið í veg fyrir þau alvarlegu mannréttindabrot að nemendur í grunnskólum fengju gefins eintak af Nýjatestamentinu, sem var eins gott því annars hefðu þeir gleypt það í sig af ákafa.
Þetta og margt annað bendir til þess að kristin trú sé á undanhaldi í þjóðfélaginu. En það er ekki þar með sagt að menn séu minna trúaðir en áður, þótt trú margra þeirra beinist að veraldlegum atriðum.
Hvernig er til dæmis með umhverfiskenningarnar? Eru þær ekki boðuð í Ríkisútvarpinu af svipaðri einlægni og ríkisútvarpið í Sádí-Arabíu er líklegt til að sinna Íslamboðuninni? Hversu margir þættir og pistlar eru frá trúboðum umhverfiskenninganna í hverri viku í Ríkisútvarpinu? Hversu mörgum talsmönnum annarra sjónarmiða er hleypt í hljóðverin til mótvægis?
Þeir sem efast um ríkjandi kenningar umhverfismálanna, hvað eru þeir kallaðir? Í rétttrúnaðarfjölmiðlum eru þeir kallaðir „afneitarar“. Þeir eru ekki menn með tilteknar skoðanir, ekki menn sem hafa fært rök fyrir skoðunum sínum, þeir eru ekki gagnrýnendur og alls ekki mótmælendur því á slíka menn má aldrei halla orði í rétttrúnaðarmiðlum. Þeir eru „afneitarar“, því þeir hafa ekki skoðun. Þeir eru að afneita sannleikanum. Eru líklega flestir á launum við að hafa áhrif á umræðuna. Hafa hagsmuni af afneituninni. Ólíkt góðu vísindamönnunum sem sækja bara um styrki og fá þá.
Hvernig er þetta í skólakerfinu? Ef leikskóli heldur „litlujól“ og börnin syngja jólasálm þá mun foreldri kvarta. Bréf verður sent til skólans, sveitarfélagsins og að sjálfsögðu fjölmiðla. Einhver frá skólanum mun koma í viðtal og biðjast afsökunar. Það má auðvitað ekki bjóða upp á dagskrá nema hún sé öllum að skapi. En hvernig eru umhverfismálin meðhöndluð? Ætli einhver telji mannréttindamál að ekki sé haldið tilteknum skoðunum að börnum þar? Eða ætli verið geti að börn fái frá fyrstu tíð fyrirlestra um sorpflokkun og endurvinnslu? Ætli það geti verið að þau séu send um hverfin að tína rusl og flokka það? Ætli þau séu teymd á gámastöðvarnar? Hversu mikla „fræðslu“ ætli þau fái um umhverfismál, strax á barnsaldri? Ætli mannréttindaráðin hafi nokkuð áhyggjur af þeirri fræðslu?
Við hversu marga leikskóla og grunnskóla má sjá íslenska fánanum flaggað? Kannski ekki mörgum. Varla vilja menn fara að ala á þjóðrembu. Svo þarf auðvitað ekki þennan íslenska fána þegar menn hafa grænfánann.
Þegar kemur að skoðunum á umhverfismálum, finnst mönnum þá að Ísland eigi að vera „fjölmenningarsamfélag“? Eða á hið opinbera að hampa einni skoðun, halda henni að fólki daginn út og inn, og stimpla svo þá menn sem afneitara, sem hafa komist að einhverri annarri niðurstöðu?