Mánudagur 21. september 2015

Vefþjóðviljinn 264. tbl. 19. árg.

Skömmu áður en dómur féll í Icesave málinu 28. janúar 2013 boðaði Samfylkingin til opins fundar um afleiðingar hans fyrir Ísland.
Skömmu áður en dómur féll í Icesave málinu 28. janúar 2013 boðaði Samfylkingin til opins fundar um afleiðingar hans fyrir Ísland.

Nú hefur náðst endanlegt samkomulag sem markar lok Icesave-málsins. Niðurstaðan er nákvæmlega eins og búast mátti við, innstæðueigendur fá að sjálfsögðu greitt það sem til er í Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta, en ekki annað umfram það sem þeir kunna svo að fá úr búi bankans. Þetta er sú niðurstaða sem öllum hefði átt að þykja sjálfsögð á sínum tíma, en að sjálfsögðu fannst þáverandi ríkisstjórn landsins að ógleymdum „aðilum vinnumarkaðarins“, „fræðimönnum úr háskólasamfélaginu“ og flestum sérfræðingum sem starfsmenn Ríkisútvarpsins bera mesta virðingu fyrir, allt önnur niðurstaða eðlilegri.

Þessir aðilar horfðu jafnan á hlutina frá sjónarhóli annarra en Íslendinga. Þeir voru uppfullir af því sama. Íslendingar eru ekki þjóð meðal þjóða. Þeir verða að „axla ábyrgð“. Íslendingar mega ekki halda að þeir séu stikkfrí. Þeir verða að borga.

Frá þessum tíma er margs að minnast. En ekki munu allir hafa mikinn áhuga á slíkri upprifjun. Menn geta velt fyrir sér hvort Ríkisútvarpið gerði upprifjunarþætti um málið ef þáttur þess sjálfs hefði verið glæsilegri. Ef það sjálft hefði ekki farið í hefðbundna skyndihræðsluherferð til að fá landsmenn til að styðja Icesave-ánauðina. Ef eina umfjöllun þess um málið, kvöldið fyrir fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna hefði ekki verið einkaviðtal við Steingrím J. Sigfússon. Og ef hefðbundnir álitsgjafar Ríkisútvarpsins hefðu ekki verið sama sinnis. Og ef þeir menn, sem hataðir eru í Efstaleiti 1, hefðu ekki verið framarlega í flokki þeirra sem alltaf börðust gegn Icesave-ánauðinni. Það er mjög margt sem fáir í Efstaleiti hafa áhuga á að rifja upp, þegar Icesave-málin koma til tals. Enda gera þau það sjaldan.

Þegar forseti Íslands tilkynnti í fyrra skiptið að hann ætlaði ekki að skrifa undir Icesave-lög, fór Ríkisútvarpið í herferð. Hræðsluáróðurinn dundi á hlustendum og svo var efnt til skoðanakönnunar sem sýndi að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna ætlaði að styðja Icesave-lögin. Næstum tvöfaldur sá fjöldi sem nú segist ætla að kjósa Pírata. Gylfi Magnússon viðskiptaráðhera sagðist hafa fengið „mjög sterk viðbrögð“ frá umheiminum, sérstaklega nágrannaríkjum Íslands sem væru „mjög slegin“ yfir fréttunum.

En æ æ eftir að dómurinn féll varð slíkur húsnæðisskortur í Reykjavík að engu líkara var en að Ísland væri orðið Kúba norðursins.
En æ æ eftir að dómurinn féll varð slíkur húsnæðisskortur í Reykjavík að engu líkara var en að Ísland væri orðið Kúba norðursins.