Helgarsprokið 20. september 2015

Vefþjóðviljinn 263. tbl. 19. árg.

Atvinnuvegaráðuneytið birti á fimmtudaginn tilkynningu vegna þeirrar ákvörðunar eftirlitsstofnuna EFTA (ESA) að stefna Íslandi fyrir EFTA-dómstólinn þar sem íslensk stjórnvöld hafi ekki lokið við að endurheimta ólögmæta ríkisaðstoð til fimm fyrirtækja innan tilskilins tíma.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir meða annars:

Íslensk stjórnvöld hafa undanfarna mánuði unnið að innleiðingu ákvörðunar ESA í samráði við stofnunina og umrædd fyrirtæki. Gert er ráð fyrir að innan mánaðar verði búið að ganga frá endurgreiðslukröfum og ljúka þar með málinu.

Rétt er að geta þess að sú samkeppnisröskun sem felst í umræddri ríkisaðstoð er ekki stórvægileg – sú hæsta hleypur á fáum milljónum króna. Tvö verkefnanna komust aldrei til framkvæmda og er því ekki um neina ríkisaðstoð eða endurkröfu að ræða í þeim tilvikum.

Hvað ætli ríkisstyrkur þyrfti að vera hár til að fela í sér „stórvægilega“ samkeppnisröskun að mati ráðuneytisins. Fáeinar milljónir króna duga ekki að mati þess. En nokkur þúsund milljónir líkt og í tilfelli Bakkaævintýrisins?

Staðreyndin er auðvitað sú að hvers kyns sérmeðferð, hvort sem það eru bein ríkisframlög, skattaafslættir eða undanþágur frá almennum reglum, er samkeppnisröskun. Og gildir þá einu hvort ESA metur það svo.

Það er til að mynda algerlega óskiljanlegt hvernig ráðuneyti sem sérstök samkeppnisstofnun heyrir undir skuli reglulega gera samninga, svokallaða ívilnana- eða fjárfestingarsamninga, við einstök fyrirtæki um alls kyns fyrirgreiðslu sem fyrirtækjum stendur almennt ekki til boða.

Fyrir síðustu kosningar lagði Steingrímur J. Sigfússon til að mynda fram frumvarp samninga um fyrrnefnt mál í landi Bakka þar sem heimiluð voru „frávik frá almennum reglum um skatta og opinber gjöld í 13 ár frá undirritun samnings.“

Þetta fyrirtæki keppir ekki aðeins við önnur fyrirtæki í sama rekstri heldur einnig við öll önnur fyrirtæki í landinu og víðar um starfsmenn, orku og önnur aðföng.

Það er hlægilegt að ráðuneyti sem stendur fyrir slíkri mismunum og samkeppnisröskun skuli stýra stofnun sem ætlað er að segja öðrum til um samkeppnismál.