Þriðjudagur 22. september 2015

Vefþjóðviljinn 265. tbl. 19. árg.

Í sumar gaf Græna orkan, sem er nokkurs konar ríkisbloggsíða um umhverfismál, út nöturlega lesningu um svonefnd orkuskipti í samgöngum.

Þar má sjá afleiðingar þess að einkafyrirtæki samdi lagafrumvarp um endurnýjanlegt eldsneyti sem varð að lögum í tíð vinstri stjórnarinnar vorið 2013.

Á línuritinu hér að ofan sem fengið er úr þessari skýrslu (bls. 11) má sjá hvernig noktun á lífdísilolíu tók stórt stökk við þessa sérhagsmunalöggjöf. Þessi lífdíselolía er miklu dýrari í innkaupum til landsins en hefðbundin dísilolía. Milljónir dollara streyma úr landi vegna þessa.

Bláa línan á myndinni er því skólabókardæmi um sóun sem á sér stað þegar lög eru samin með hagsmuni eins fyrirtækis í huga.

Notkun á innlendu metani (hauggasi) hefur einnig aukist nokkuð en það er þróun sem rekja má allt aftur til ársins 2006 eða löngu fyrir tíma sérgæskulaganna um endurnýjanlegt eldsneyti.

Í textanum undir línuritinu er sagt að það sýni „hve mikið jarðefnaeldsneyti sparast við notkun endurnýjanlega eldsneytisins.“ Þetta er hæpin fullyrðing því við framleiðslu eldsneytis á borð við innflutta lífdísilolíu og etanóli þarf jafnan mikið jarðefnaeldsneyti, allt frá orkunni sem þarf í áburðarframleiðslu til orkunnar á landbúnaðartækin sem nýtt eru við ræktun á repju, maís, hveiti og öðrum jurtum sem lífeldsneytið er kreist úr.

Í sumum tilvikum er jafnvel efast um að orkan sem fæst úr lífeldsneytinu sé meiri en orkan sem framleiðsla þess krefst! Og í leiðinni ná menn kannski matnum af diski einhvers þurfandi.