Mánudagur 24. ágúst 2015

Vefþjóðviljinn 336. tbl. 19. árg.

Íslendingar njóta ekki olíuverðslækkana að fullu því lög neyða þá til að kaupa inn lífolíur sem kosta nú 150% meira en hefðbundin Dieselolía.
Íslendingar njóta ekki olíuverðslækkana að fullu því lög neyða þá til að kaupa inn lífolíur sem kosta nú 150% meira en hefðbundin Dieselolía.

Lög vinstri stjórnarinnar um endurnýjanlegt eldsneyti hafa verið gagnrýnd á þessum vettvangi frá því þau voru sett í skyndi í skjóli nætur fyrir kosningar vorið 2013. Ekki minnkaði vantrúin á þau þegar í ljós kom að Steingrímur J. Sigfússon hafði látið hagsmunaaðila skrifa lagafrumvarpið fyrir sig.

Lögin neyða íslensk olíufélög til að flytja inn dýra lífolíu til íblöndunar (5%) í hefðbundna Dieselolíu.

Þegar lögin voru sett var lífolían um 70% dýrari í innkaupum en hefðbundið Dieselolía. Eftir verðlækkun undanfarinna missera á hefðbundnu jarðefnaeldsneyti er lífolían hins vegar um 150% dýrari í innkaupum. Já íslensk stjórnvöld neyða landsmenn til að kaupa miklu dýrara eldsneyti en þörf er á.

Hvers vegna geta lífolíuframleiðendur sett upp svona hátt verð? Hvers vegna fylgir verð þeirra ekki verði jarðefnaeldsneytis? Jú vegna þess að seljendur eldsneytis eru ekki aðeins skyldaðir til að selja ákveðið hlutfall af slíku „endurnýjanlegu“ eldsneyti heldur fylgir því verulegur ríkisstuðningur sem skattaafsláttur að fara að lögunum. Þennan ríkisstuðning hirða lífolíuframleiðendur að mestu leyti.

Í tilviki Íslands fer ríkisstuðningurinn nær allur úr landi.