Vefþjóðviljinn 237. tbl. 19. árg.
Það er algengt að stjórnmálamenn og aðrir sem fjalla um stjórnmál horfi svo stíft á „hópinn“ að þeir sjá ekki einstaklinginn. Þetta er sérstaklega algengt hjá þeim sem mikið tala um jafnréttismál.
Þeir eiga yfirleitt alls ekki við jafnrétti einstaklinga. Þeir eru með hugann við tvo hópa, Alla karla og Allar konur. Megi með einhverjum aðgerðum „jafna“ stöðu þessara tveggja hópa, er þeim yfirleitt sama um einstaklingana sem í hlut eiga.
Þegar eitthvað er gert til að „jafna“ hlut Allra kvenna og Allra karla, þá hefur það áhrif á einhverja einstaklinga. Einn fær stuðning, annar hindrun.
Ríkisútvarpið sagði frá því í vikunni að nú væru óvenjumargir karlmenn að hefja nám í hjúkrunarfræði. Nánar tiltekið fjórir. Í stétt hjúkrunarfræðinga eru kynjahlutföllin með þeim allra ójöfnustu. Þeir sem horfa á Alla karla og Allar konur vilja auðvitað jafna þau með ýmsum opinberum aðgerðum.
En með því er horft fram hjá áhrifum slíkra aðgerða fyrir raunverulega einstaklinga.
Hvaða réttlæti er í því að karlkynsnemarnir fjórir hafi samkvæmt opinberri stefnu meiri möguleika að loknu námi heldur en hver og ein skólasystir þeirra? Hvers vegna eiga þær að gjalda fyrir einhver kynjahlutföll sem þær bera enga ábyrgð á?
Það vill svo til að ekki er sérstakt atvinnuleysi í stéttinni. Spítalana og heilsugæsluna vantar alltaf hjúkrunarfræðinga. En hvað ef svo væri ekki?
Og hvað svo þegar þetta fólk er ekki lengur nýútskrifað? Ætli allir hjúkrunarforstjórar séu ekki konur og allir deildarstjórar í hjúkrunarfræðingastétt líka? Hvers vegna eiga þessir fáu karlar í stéttinni að fá forskot á konurnar þegar kemur að stöðuhækkunum í framtíðinni?
Þeir sem vilja jafna kynjahlutföll, hvort sem það er í stétt hjúkrunarfræðinga eða í öðrum stéttum, hvort sem það er í skipun í nefndir eða stjórnir fyrirtækja eða jafnvel úthlutun kvikmyndasjóðs, þeir horfa bara á hópa en sjá ekki einstaklingana.