Helgarsprokið 23. ágúst 2015

Vefþjóðviljinn 235. tbl. 19. árg.

Hér varð ekki hrun árið 2008. Þvert á móti stóð þjóðfélagið umrótið af sér.
Hér varð ekki hrun árið 2008. Þvert á móti stóð þjóðfélagið umrótið af sér.

Eins og víða annars staðar hefur orðið hrun verið notað á þessum vettvangi um atburði í október 2008.

En hrun var líklega of stórt orð yfir það sem gerðist. Og „Hrunið“ þess heldur.

Vissulega strönduðu nær öll stærstu fyrirtæki landsins í sama óveðrinu og gekk yfir allt efnahagskerfi Vesturlanda þegar ofgnótt lánsfjár varð að með undraskjótum hætti að algerum skorti. Nærri lá að hefðbundin bankastarfsemi hér á landi legðist af um tíma.

En afvelta fyrirtækjum var smám saman komið á lappirnar eða önnur spruttu upp í þeirra stað.

Þjóðfélagið leystist ekki upp í ofbeldi þótt forsprakkar „búsáhaldabyltingarinnar“ hafi gert sitt helsta til að svo yrði. Það hrundi ekki. Helstu stoðir þjóðfélagsins stóðu áfallið af sér. Lögreglan og dómstólarnir. Réttarríkið stóð styrkum fótum. Sjómenn héldu sem fyrr á miðin. Bakararnir bökuðu brauðið áfram. Bændurnir héldu áfram að mjólka og gefa á garðann. Börnin fóru með nestið sitt í skólann. Flestir stúdentar mættu í tíma fremur en að kasta grjóti í lögregluna og þinghúsið.

Kannski var það eina sem raunverulega hrundi á þessum tíma, annar stjórnarflokkurinn. Samfylkinginn lét undan kröfu ofbeldismannanna á Austurvelli um ótímabær ríkisstjórnarskipti, myndun minnihlutastjórnar og kosningar vorið 2009. Til þess fékk hún góða aðstoð tækifærissinna úr VG og Framsóknarflokki.

Á stefnuskrá þessara þriggja flokka voru þá líka komin áform um að nota moldvirðið sem skjól til að gera atlögu að stjórnskipan landsins. Fyrst átti að henda stjórnarskrá eins farsælasta lýðveldis sögunnar út í hafsauga og renna því svo inn í Evrópusambandið. Hefði þessi árás tekist mætti kannski tala um einhvers konar hrun.

Já það þrengdist vissulega um hjá flestum. Og margir misstu vinnuna og gátu ekki lengur ráðið við skuldbindingar sem þeir höfðu gert á grunni góðra tekna á árunum þar á undan.

En það er ofmælt að efnahagsáfallið 2008 hafi verið hrun.

Ísland var sem fyrr ágætt land, ekki síst í samanburði við önnur.