Vefþjóðviljinn 234. tbl. 19. árg.
Í nokkra daga tókst fáeinum mönnum að rugla umræðuna um viðskipti Íslands og Rússlands þannig að fólk var farið að trúa því að Ísland hefði sett viðskiptabann á Rússland, þegar því er öfugt farið. Jafnvel var talið að Ísland hefði eitt ríkja bannað öll viðskipti við Rússa á meðan Benzar og ítalskir skór streymdu austur eftir.
Í frétt Morgunblaðsins í gær segir af ræðu Þorsteins Más Baldvinssonar á aðalfundi Síldarvinnslunnar. Þar er haft eftir Þorsteini að umræðan um málið hafi verið afvegaleidd.
Þvert á það sem ætla mætti af fjölmiðlaumfjöllun og yfirlýsingum ráðamanna þá snúast aðgerðir Evrópusambandsins ekki um refsingu. Þetta eru ekki refsiaðgerðir. Það kemur skýrt fram í tilkynningu Evrópusambandsins. Jafnframt kemur fram að þetta séu aðgerðir sem eiga ekki að hitta fyrir almenning, hvorki í Rússlandi né löndum Evrópusambandsins. Það kemur einnig skýrt fram. Í umræðunni er talað um viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi.
Morgunblaðið segir svo frá til viðbótar: Þorsteinn benti á að Rússar gæti keypt hvaða vörur sem þeir vildu frá Evrópusambandinu fyrir utan hergögn. Þannig hefðu aðgerðir sambandsins hverfandi áhrif á fyrirtæki og einstaklinga í Rússlandi og Þýskalandi og vísaði í þýska utanríkisráðherrann í þeim efnum.
Ísland hefur engin almenn viðskipti stöðvað við Rússland, ekki frekar en önnur ríki á evrópska efnahagssvæðinu. Viðskiptahindranirnir eru Pútíns.
Hvort hann afnemur þær ef Íslendingar draga stuðning við vopnasöluna til stríðsherrana er auðvitað engin leið að meta.