Föstudagur 21. ágúst 2015

Vefþjóðviljinn 233. tbl. 19. árg.

Jón Steinsson hagfræðingur fullyrðir í grein í Fréttablaðinu í dag að „útgerðarmenn kosta að stórum hluta núverandi stjórnarflokka.“ Svo leggur hann annað í greininni út af þessu.

Líkt og allir geta kynnt sér á vef ríkisendurskoðunar eru það skattgreiðendur sem fjármagna íslensku stjórnmálaflokkanna að mestu leyti. Þannig voru framlög fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins innan við 10% af tekjum flokksins á árunum 2012 og 2013. Fyrirtæki mega heldur ekki styrkja flokk um meira en 400 þúsund krónur á ári. En kannski á Jón við að útgerðin geri það í gegnum ríkissjóð með þeim miklu sköttum sem hún greiðir.

Til marks um áhrif útgerðarinnar nefnir Jón svo Rússlandsmálið. En bíddu er ekki verið að halda því fram opinberlega að þátttaka ríkisstjórnar Íslands í vopnasölubanninu á stríðherrana í Kreml hafi valdið því að þeir ákváðu að ráðast á eina mikilvægustu atvinnugreinina litla landinu? Nefnt hefur verið að tjón útgerðarinnar geti verið allt að 30 milljörðum króna í því samhengi.

Ekki fær nú útgerðin mikið fyrir hundrað þúsund kallana til stjórnmálaflokkana ef styrkþegarnir láta hana taka 30 milljarða skell á móti.