Fimmtudagur 20. ágúst 2015

Vefþjóðviljinn 232. tbl. 19. árg.

Það er skrítið að þeir sem gagnrýna nú stuðning íslenskra stjórnvalda við vopnasölubann Vesturlanda á Rússland gerðu það fæstir fyrir rúmu ári þegar stuðningurinn var veittur. Það er ekki fyrr en nú þegar Pútín leggur stein í götu mikilvægra viðskipta við Ísland sem nokkrir menn gagnrýna stjórnarmeirihlutann og sérstaklega utanríkisráðherrann fyrir stuðning Íslands við aðgerðir helstu lýðræðisríkja.

Grátlegast er þó að sjá nokkra stjórnarþingmenn kvefast um leið og Pútín hóstar

Þetta er það sem Pútín ætlaði sér. Þegar félagi ber að ofan með lásboga á hrossi takmarkar frjáls viðskipti við Ísland telja þessir menn að íslensk stjórnvöld hljóti bara að hafa gert eitthvað rangt. Gunnar Bragi hlýtur að bera ábyrgð á makrílsölubanni Pútíns!

Enginn þorir þó að segja að hreint út að Ísland eigi að afturkalla stuðninginn við vopnasölubann Vesturlanda á mennina sem lögðu Krímskaga nýlega undir sig og kynda undir átökum í Austur-Úkraínu sem meðal annarrar ógæfu leiddu til þess að farþegavél á leið frá Amsterdam var grandað.

Jafnvel Bynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að við „getum tæplega bakkað út núna með því að afturkalla stuðninginn.“

En til að segja eitthvað er það gagnrýnt – nú en ekki fyrir ári – að utanríkisráðherra hafi ekki látið fara fram nægilega faglega „greiningu“ á því í ráðuneytinu til hvaða aðgerða gegn Íslandi Pútín gæti gripið.

Ef að sú „greining“ hefði leitt í ljós að hámarksskaðinn sem Pútín gæti valdið Íslandi væri tiltekin fjárhæð, hvað þá? Væri þá komin ný breyta í það hvort selja eigi mönnum Pútíns vopn og leyfa viðskipti með herfang þeirra?

Og ef að þetta mál er ekkert annað en hagsmunagreining og bókhaldsæfing hvar nákvæmlega draga menn mörkin í krónum talið? Það væri gott að fá svar við því.