Vefþjóðviljinn 231. tbl. 19. árg.
Einn þeirra manna sem miklu hefur skipt í íslenskum þjóðmálum, án þess að verða kjörinn fulltrúi, er Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur. Frumkvæði hans og foyrsta um undirskriftasöfnunina sem kennd var við „Varið land“ mun lengi halda nafni hans á lofti. Þar var framkvæmd einstæð undirskriftasöfnun, alls ólík þeim sem nú fara reglulega fram með „músarsmellum“ og fréttamenn halda að skipti máli. Ættu ungir áhugamenn um íslensk þjóðmál hiklaust að lesa frásögn Þorsteins Sæmundssonar af söfnuninni og árásunum á þá sem að henni stóðu, en hana má finna í tímaritinu Þjóðmálum, 2. og 3. hefti 2008.
Í gær ritaði hann hins vegar grein í Morgunblaðið um kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasagi og árlegar minningarathafnir um þær. Honum finnst að sjálfsögðu skiljanlegt að þeir sem eigi um sárt að binda eftir árásirnar viji rifja þær upp og halda minningunni á loft og að einnig sé skiljanlegt að aðrir vilji sýna þeim samúð sína. Hins vegar sé ekki eins sannfærandi þegar látið sé eins og minningarathafnir um árásirnar séu ætlaðar til þess að koma í veg fyrir að slík saga endurtaki sig. Erfitt sé að ímynda sér að þeir sem fleyti kertum og taki þátt í blysförum trúi því í raun að slíkt hafi áhrif á þá sem ráða yfir kjarnorkuvopnum. Í greininni segir meðal annars:
Minningarathafnir hafa gjarna tilgang sem ekki er auglýstur. Japanir vilja trúlega að þjóðir heims líti á þá sem fórnarlömb í þeim hildarleik sem heimsstyrjöldin var. Þeir hafa verið tregir til að viðurkenna þá hryllilegu glæpi sem þeir frömdu í styrjöldinni á óbreyttum borgurum og stríðsföngum, glæpi sem leiddu til þess að þeir höfðu undir lokin misst alla samúð og uppskorið hatur um víða veröld. Þeir góðviljuðu menn sem fara blysför undir merkinu „Aldrei aftur Hiroshima“ ættu ekki síður að hafa uppi merkið „Aldrei aftur Nanking“ til minningar um þá óbreyttu borgara sem Japanir drápu í þeirri borg og voru miklu fleiri en þeir sem grandað var í Hiroshima og Nagasagi. Fjöldamorðin sem Japanir frömdu í Manila 1945 voru sambærileg. Dánartölur þar reiknast í hundruðum þúsunda. Þegar sagt er frá meðferð Japana á stríðsföngum er dauðagangan á Baatan 1942 oftast nefnd, en önnur dæmi eru ekki síður óhugnanleg.
Annan samanburð er vert að gera. Þótt kjarnorkuárásirnar hafi verið skelfilegar, sýnast þær síst verri en þær loftárásir sem gerðar voru með eldsprengjum á stórborgir í Þýskalandi og Japan. Þá er átt við mannskaða og mannlegar þjáningar, en ekki sálræn áhrif eða áhrif á mannvirki. Í árás á Hamborg í júlí 1943 myndaðist eldhaf svo ógurlegt að hitinn náði þúsund stigum að talið er, og fólk bókstaflega sogaðist eftir götunum inn í bálið. Þar fórust um 40 þúsund manns og annar eins fjöldi slasaðist. Í árás á Tókýó í mars 1945 myndaðist svipað eldhaf sem grandaði 100 þúsund manns og slasaði álíka marga. Til samanburðar er talið að 70 þúsund manns hafi farist í Hiroshima og önnur 70 þúsund skaðast. Í Nagasagi voru tölurnar um það bil helmingi lægri.
Einhver myndi segja að munurinn á kjarnorkusprengjum og eldsprengjum væri sá, að þeim fyrrnefndu fylgdi geislavirkni sem gæti skaðað fólk síðar á ævinni. Þetta er út af fyrir sig rétt, en áhrifin eru iðulega ofmetin. Árið 1992 voru tekin saman gögn um 87.000 manns sem höfðu lifað af árásirnar á Hiroshima og Nagasagi. Af þeim voru 40.000 dánir, en aðeins 690 vegna geislavirkni.
Sumir þeirra friðarsinna sem fordæma kjarnorkuárásirnar hafa annað í huga. Þeir vilja nota tækifærið til að sverta Bandaríkjamenn, einu þjóðina sem hafi beitt þessu ægilega vopni. Um leið er kynt undir þeirri söguskoðun að beiting kjarnorkuvopnsins hafi verið ónauðsynleg, japanska herveldið hafi verið komið að fótum fram og tilgangurinn hafi verið sá að sýna Sovétmönnum í tvo heimana. En Japanir höfðu sýnt í vörn smáeyja eins og Ivo Jima að þeir voru tilbúnir að berjast af ótrúlegri hörku til síðasta manns. Ekki þurfti að efast um vilja þeirra til að verja sjálft heimalandið. Bandarískir herforingjar mátu það svo, að mannfall í innrásarliðinu gæti orðið allt að milljón manns. Þótt sú tala hafi verið dregin í efa, er öldungis víst að manntjónið hefði orðið svo mikið að enginn forseti hefði getað réttlætt það fyrir landsmönnum sínum að hafa ekki leyft að nota öflugasta vopnið sem tiltækt var til að binda enda á styrjöldina.
Þessi grein Þorsteins Sæmundssonar stjörnufræðings er áhugaverð eins og svo margt annað sem frá honum kemur. Hann tekur fram í grein sinni að hann skrifi hana ekki til að réttlæta gerðir annars stríðsaðilans eða fordæma hinn, heldur til að varpa nokkru ljósi á samhengi atburðanna. Eitt af því sem mjög skortir í íslenskri stjórnmálaumræðu er almennur skilningur á samhengi hluta og atburða.