Vefþjóðviljinn 230. tbl. 19. árg.
Það styttist vonandi í að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og ýmsir fleiri segi það umbúðalaust hver skoðun þeirra á aðgerðum Vesturlanda gegn stjórnvöldum í Moskvu er.
Eru SFS andsnúin vopnasölubanni Vesturlanda á Pútín og hans menn? Eru þau fylgjandi því að herfang Rússa frá Krímskaga og Austur-Úkraínu gangi kaupum og sölu í Evrópu? Telja þau verslun með þýfi af hernumdum svæðum eðlilegan þátt í frjálsum viðskiptum? Þessar takmarkanir eru hryggjarstykkið í aðgerðum Vesturlanda. Vesturlönd hafa ekki takmarkað almenn viðskipti við Rússa þótt án efa séu einhver grá svæði í aðgerðum sem þessum gegn yfirgangsmönnum.
Eða vilja SFS bara að íslensk stjórnvöld lýsi því yfir að vopnasölubannið hafi verið mistök? Að íslenska þjóðin verði skrifuð fyrir því?
Er það ekki fyrsta skrefið þegar menn vilja að tiltekin skoðun verði ofaná að menn þori að viðra hana sjálfir?
En hér er því spáð að SFS muni aldrei lýsa því yfir að þau harmi aðgerðir Vesturlanda gegn Pútín.