Laugardagur 15. ágúst 2015

Vefþjóðviljinn 227. tbl. 19. árg.

Af mörgu er að taka í umræðum síðustu vikna um vændi. En til að gera langa sögu stutta má vísa í grein eftir Árna Matthíasson blaðamann í Morgunblaðinu í 12. ágúst. Þar segir Árni sögu stúlkna frá Austur-Evrópu sem bjóðast þjónustustörf í nýju landi.

Ekki líður þó á löngu að stúlkurnar átta sig á því að þjónustan sem þeim er ætlað að veita er kynlífsþjónusta hvort sem þær vilja það eða ekki. Fyrst er þeim nauðgað og þær barðar til hlýðni og þegar búið er að brjóta þær niður taka þær við tugum „viðskiptavina“ á dag. Nóg er að eiturlyfjum til að halda þeim auðsveipum þegar hnefinn dugir ekki til.

Árni telur að þessi saga sýni svo ekki verði um villst að vændi eigi að banna. En Árni er ekki að lýsa vændi. Hann er að lýsa mannránum, nauðgunum, þrældómi og öðru ofbeldi.

Hvort ætli sé nú líklegra að menn verði fyrir slíku ofbeldi ef vændi er refsilaust eða er ýtt niður í lögleysu undirheimanna með boðum og bönnum?