Helgarsprokið 16. ágúst 2015

Vefþjóðviljinn 228. tbl. 19. árg.

Hver ætli viðbrögðin yrðu ef lagt yrði til á þingi að bílaleigurnar í landinu fengju ríkisstyrk, nokkra milljarða króna sem myndu skiptast milli þeirra eftir stærð?

Einhver heldur sjálfsagt að allt yrði vitlaust. Að sagt yrði að ríkið ætti ekki að veita fjárstyrki til slíkrar starfsemi og alls ekki á tímum þegar óvenjulegur uppgangur er í ferðaþjónustu.

Já, kannski yrði slík hugmynd skotin í kaf. En kannski ekki.

Í gær greindi Morgunblaðið frá því að frá því árið 2010 hefði ríkissjóður orðið af um níu milljörðum króna vegna „eftirgjafa á vörugjöldum bílaleigubíla“ og um 2,3 milljörðum króna vegna virðisaukaskatts.

Þetta er gríðarlegur ríkisstyrkur við bílaleigur, en af því hann er veittur með eftirgjöf slíkra gjalda virðist enginn segja neitt, í samanburði við það sem yrði sagt ef lagðar yrðu til beinar greiðslur úr ríkissjóði til fyrirtækjanna.

Í fréttinni kemur fram að fyrirhugað sé að endurskoða þetta fyrirkomulag. Það er auðvitað jákvætt, en hefði átt að vera búið fyrir löngu.

Þetta fyrirkomulag er dæmi um þann sið ríkisins að blanda saman óskyldum hlutum. Skattar og hefðbundin opinber gjöld hafa þann tilgang að afla ríkinu tekna. Ekki á að blanda öðrum markmiðum saman við það. Ef þingmenn vilja styrkja einhverja starfsemi þá eiga þeir að gera það með ákveðnum fjárveitingum sem sjást greinilega í fjárlögum. Það á ekki heldur að nota tekjuöflun ríkisins til þess að reyna að stýra hegðun fólks, svo sem með sérstökum skatti á neysluvörur sem þingmenn vilja að fólk kaupi minna af, en skattaafslætti af þeim vörum sem þeir vilja að fólk kaupi meira af. Skattar hafa það hlutverk að afla ríkinu tekna, ekki að fá það til að borða minni sykur.

Skattkerfið á að vera einfalt. Þannig var aðeins eitt tekjuskattsþrep, þótt þeir tekjuhærri greiddu að sjálfsögðu meiri tekjuskatt en hinir. En það nægði vinstristjórn Jóhönnu ekki, heldur fjölgaði hún skattþrepum í þrjú. Nú er kjörtímabilið meira en hálfnað og skattþrepin eru enn þrjú. Því var hins vegar lýst yfir í tengslum við kjarasamninga í vor að þeim yrði fækkað í tvö í vetur, sem verður skref í rétta átt, en þær útfærslur sem kynntar hafa verið fram til þessa benda til þess að sú skattalækkun sem af þessu hlýst verði mun minni en rétt hefði verði. Vonandi verður það lagað áður en breytingarnar verða gerðar.

Skattalækkanir hafa verið mun minni á kjörtímabilinu en ástæða hefði verið til. Tekjuskattslækkanir nær engar, þótt aðeins eigi að auka þær í vetur. Virðisaukaskattsprósentur voru færðar til og fjármálaráðuneytið reiknaði út að í heild yrðu þær breytingar til að lækka virðisaukaskattheimtuna eitthvað, en þar þyrfti meira að koma til. Vinstristjórnin tvöfaldaði erfðafjárskattinn en því hefur ekki verið breytt. Veiðigjöld voru hækkuð gríðarlega á síðasta kjörtímabili en mjög lítið hefur verið gert til að vinda ofan af því, þrátt fyrir eindregin kosningaloforð um lækkun veiðigjalda, en fréttamenn hafa af einhverjum ástæðum engan áhuga á að rifja þau loforð upp og spyrja hvenær þau verði efnd.

Innan ríkisstjórnarinnar er svo mikil hræðsla við lækkun útvarpsgjalds. En sú hræðsla er við reiði starfsmanna Ríkisútvarpsins, en innan ríkisstjórnarinnar er mikill ótti við þá. Þingmenn stjórnarflokkanna verða þar hins vegar að standa sig.

Fjölmargt mætti gera til að létta byrðum af fólki. Lítið dæmi eru bifreiðagjöld, en fólk greiðir tugi þúsunda króna á ári í bifreiðagjöld af venjulegum fólksbíl. Mætti ekki lækka þetta umtalsvert? Nei ekki? En það er hægt að gefa eftir níu milljarða til bílaleigufyrirtækja. Það var hægt að leggja hálfan milljarð í “jafnréttissjóð” í sumar.

Enginn fréttamaður spyr “hvar á að taka peningana” þegar lagður er hálfur milljarður í nýjan “jafnréttissjóð”. En ef lækka ætti bifreiðagjöld þá yrði strax spurt. Og stjórmmálamenn þora þá ekki að gera neitt sem máli skiptir.

Hvers vegna eru bifreiðagjöldin ekki lækkuð verulega? Til dæmis um helming? Öll heimili, þar sem er bifreið sem ekki er orðin 25 ára gömul, myndi muna um það. Þetta og helmings lækkun útvarpsgjalds væri raunveruleg kjarabót fyrir næstum alla. Hvers vegna er það ekki bara gert?

Vörugjöld voru felld niður og það var mjög jákvætt skref, en er auðvitað aðeins brot af því sem gera þarf, þótt ekki væri nema til að hreinsa upp skattahækkanir vinstristjórnarinnar. Fyrirhugað afnám tolla er auðvitað jákvætt líka.