Föstudagur 14. ágúst 2015

Vefþjóðviljinn 226. tbl. 19. árg.

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um þann tíma sem oft tekur að fá úrlausn mála í stjórnsýslunni. Er þar sérstaklega fjallað um úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál en sum mál sem hún hefur á borði sínu eru frá  árinu 2008.

Sérstökum „sjálfstæðum úrskurðarnefndum“ hefur fjölgað ört, eftir að þær komust í tísku fyrir nokkrum árum, en tískubylgjur ganga yfir í stjórnsýslunni eins og annars staðar. Reglulega er efnt til kostnaðarsamra aðgerða til að tolla í tískunni, veggir eru brotnir og settar upp glerrúður, starfsmönnum er smalað í „opin rými“ eða „sameiginleg rými“, stundum rennur á menn rafrænt æði og þeir vilja helst hafa heilu stofnanirnar „rafrænar“, og þannig má áfram telja.

Á þessu græða margir, sérstaklega allir „ráðgjafarnir“ sem fengnir eru til að sjá um „innleiðinguna“.

Ein skýringin á því að tíma tekur að fá niðurstöðu í mál hjá stjórnsýslunni er að verkefnum hennar fjölgar með ógnarhraða. Bæði er það vegna þess að stjórnsýslan sinnir fleiri og fleiri verkefnum, sem mörg hver ættu kannski ekki að vera á verksviði hins opinbera, en ekki síst vegna þess að stjórnsýslan hefur gefið út „veiðileyfi“ á sjálfa sig.

Þeir sem vilja geta lagt töluvert vinnuálag á stjórnsýsluna, án nokkurs eigin tilkostnaðar. Hitt og þetta má kæra, það má krefjast rökstuðnings fyrir ótal hlutum, koma að andmælum, fá upplýsingar, og svo framvegis, án þess að menn þurfi að leggja mikið á móti. Hvers vegna er ekki tekið gjald fyrir ýmislegt af þessu? Er eðlilegt að menn geti sent einn tölvupóst með erindi, sem tekur marga daga að vinna svar við, og þurfi ekki að borga krónu fyrir?

Það kostar fé að leggja bíl í bifreiðastæði hins opinbera í miðbænum. En sá sem situr heima hjá sér og sendir samfelldar kröfur um „rökstuðning“ fyrir hverju sem er, borgar ekki krónu.