Laugardagur 8. ágúst 2015

Vefþjóðviljinn 220. tbl. 19. árg.

Í fyrradag var vikið að því hér að „tekjublöðin“ svonefndu eru unnin upp úr álagningarskrá en ekki skattskrá sem skattstjóri birtir eftir að menn hafa gert athugasemdir og leiðrétt álagningarskrána.

En skattstjóri vinnur einnig og sendir á „fjölmiðla“ lista yfir þá sem fá á sig hæstu álagninguna – ekki endanlega skatt heldur álagningu – án þess að hafa til þess nokkra heimild í lögum. Stundum hefur þessi listi verið nefndur „hákarlalisti“ til að undirstrika að þetta lið eigi nú fátt gott skilið.

Þetta lagaheimildarleysi kom berlega fram í svari Katrínar Júlíusdóttur þáverandi fjármálaráðherra við fyrirspurn um það efni fyrir þremur árum. Í svari ráðherrans er aðeins vísað í almenna heimild til að leggja skrárnar fram en enga tiltekna heimild er fyrir vinnslu og dreifingu persónuupplýsinga á borð við „hákarlalistann.“