Föstudagur 7. ágúst 2015

Vefþjóðviljinn 219. tbl. 19. árg.

Það eru ekki aðeins einstaklingar sem eru uppnefndir. Skoðanir þeirra eru það stundum líka. En ekki endilega allar skoðanir.

Margir hafa miklar áhyggjur af „hatri“ annarra. En það er ekki hvaða hatur sem er. Um ýmsa má segja hvað sem er, án þess að vera sakaður um hatur. Fáir hafa áhyggjur af „hatri“ á framsóknarmönnum, sjálfstæðismönnum, fyrirtækjum í sjávarútvegi, stórum fyrirtækjum, litlum fyrirtækjum, bönkum, fjármálafyrirtækjum eða atvinnulífunu almennt. Hvað sem sagt er um slíka aðila, og ótalmarga aðra, er sjaldan flokkað sem „hatursáróður“.

Þegar íslenskir spekingar fjalla um erlend stjórnmál eru þeir yfirleitt nákvæmir í mati sínu á því hvað er hatur og hvað ekki. Það má segja hvað sem er um bandaríska repúblikana. George W. Bush sérstaklega. Hjá evrópskum gáfumönnum er almenn samstaða um að hann sé fáviti. Evrópskir gáfumenn höfðu hins vegar lengi áhyggjur af „hatrinu“ sem hægrimenn bæru til Hillary Clinton. Gagnrýni á hana stafaði af „hatri“, eða af öðru sem ekki var síður alvarlegt, „ótta“.

Evrópskir gáfumenn eru sannfærðir um að Fox News sé skelfileg áróðursstöð. Þeir eru einnig sannfærðir um að breska blaðið Guardian sé hlutlaust stórblað. Á hverjum degi má sjá erlenda frétt í íslenskum vefmiðli þar sem vísað er á „umfjöllun Guardian um málið“. Og er þó iðulega verið að segja frá máli sem er í öllum helstu erlendu fréttamiðlum. Samt þykir flestum íslenskum fjölmiðlamönnum nærtækast að kanna hvað Guardian hefur að segja.

Það er ekki bara „hatur“ sem umburðarlyndismenn hafa miklar áhyggjur af. „Óttinn“ er ekki betri. Þeir gagnrýna „ótta“ annarra af miklum þunga. En sá „ótti“ er bara á ákveðnum afmörkuðum sviðum og að sjálfsögðu allur „byggður á fáfræði“, sem þó virðist sjaldan þurfa að leiðrétta með raunverulegum upplýsingum.

Þessir umburðarlyndu menn hafa miklu síður orðið varir við óþarfan ótta í til dæmis umhverfismálum. Þar finnst þeim ekki bera á því að kynnt sé undir ótta við skelfileg umhverfisslys sem dunið geti yfir eftir einhverja áratugi „ef ekki verður brugðist strax við“. Þeir sjá til dæmis ekkert athugavert við samfelldan boðskap Ríkisútvarpsins í umhverfismálum, þar sem baráttumenn eiga föst sæti en sjaldan eða aldrei þykir ástæða til að kalla til menn sem kynnu að hafa aðrar skoðanir eða upplýsingar.

Þeir telja ekki heldur að þeir sem hafa miklar áhyggjur af „misskiptingunni“ séu boðberar stjórnmála óttans.

Vafalaust stjórnast sumir af hatri og ótta. En allt of oft eru rökstuddar skoðanir afgreiddar án raka en með uppnefnum.