Helgarsprokið 9. ágúst 2015

Vefþjóðviljinn 221. tbl. 19. árg.

Hvers vegna hefur ljónum í Kenía fækkað um 90% frá árinu 1977 þegar ljónaveiðar voru bannaðar þar í landi? Nú eru aðeins um 2 þúsund dýr á lífi.

Eru boð og bönn ekki helsta von hinna villtu dýra?

Líkt og Terry Anderson og Shawn Regan hjá PERC benda á í grein í The Wall Street Journal í gær geta sportveiðar verið mikilvægur þáttur í því að tryggja sambúð manns og villtra dýra. Veiðar eru oft mikilvægasta tekjuuppsprettan fyrir nágranna villidýranna. Án þessara tekna væru dýrin aðeins hættulegir nágrannar sem ógna ekki aðeins lífum og limum manna og búsmala heldur einnig uppskeru.

Þegar sportveiðar eru bannaðar glata nágrannar villidýranna og eigendur veiðilendna möguleikanum á því að hafa af þeim tekjur.

Greinarhöfundar vitna til heimildar þess efnis að stærra svæði sé verndað sem veiðilendur en þjóðgarðar í Afríku.

Það heyrast engin neyðaróp af kaffihúsum vestrænna borga þegar afrískir þorpsbúar eru étnir af villidýrunum. Afríkumenn virðast eiga að lifa innan um dýrin án þess að hafa af þeim tekjur.