Þriðjudagur 28. júlí 2015

Vefþjóðviljinn 209. tbl. 19. árg.

Á hjara veraldar í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur árið 1983.
Á hjara veraldar í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur árið 1983.

Síðasta vetur hékk stórt auglýsingaspjald á gafli á húsi tollstjórans við Tryggvagötu. Þar sagði eitthvað á þá leið að konur hefðu aðeins fengið ákveðið lágt hlutfall úr kvikmyndasjóði.

Hvers vegna fylgdi ekki sögunni hve stórt hlutfall umsækjenda hefðu verið konur? Hafa konur fengið lægra hlutfall styrkja en umsóknir þeirra segja til um?

Nú hefur Vefþjóðviljinn ekki upplýsingar um hvernig þessu hefur verið háttað í gegnum tíðina. En á vef kvikmyndasjóðs má þó sjá að árið 2012 voru umsóknir frá konum 22% af heildarfjölda umsókna  og fengu þær 19% af fjölda styrkja auk þess 15% styrkja í félagi við karla en slíkar sameiginlegar umsóknir voru 6% umsókna. Ekki koma fram fjárhæðir í þessum samanburði.

Það er því óhætt að segja að það ár hafi kynin fengið styrki í samræmi við hlutfall umsókna. Bæði kynin fengu jákvætt svar við um 40% umsókna.

Ef að settur yrði kynjakvóti á styrkina með lágmarki 40% á hvort kyn myndu konur eiga tvöfalt meiri möguleika á úthlutun en karlar miðað við umsóknahlutfallið árið 2012. 

En á þessu vandamáli er auðvitað sama lausn og í svo mörgum öðrum málum. Já, að ríkið hætti að taka skatta af öllum til að úthluta til fárra, hætti að skattleggja húsmæður á Ísafirði fyrir leikstjóra í Reykjavík.