Vefþjóðviljinn 210. tbl. 19. árg.
Flestir hafa einhverjar stjórnmálahugmyndir, hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki. Jafnvel þeir sem telja sig „ópólitíska“, og í samræmi við tíðarandann eru margir þeirra stoltir af því, hafa yfirleitt pólitískar skoðanir, jafnvel sterkar, án þess að átta sig á því. Þegar þeir hlusta á fréttir draga þeir sínar ályktanir, taka í huganum undir með einum en ekki öðrum, finnst eitt úrræði skynsamlegt en annað ekki. Flestar þessar ályktanir hins „ópólitíska“ manns ráðast af pólitískri afstöðu hans, enda er hann miklu pólitískari en hann vill viðurkenna, þegar hann tekur þátt í samkvæmisleikjum tíðarandans, úthúðar „fjórflokknum“, rétt eins og stjórnmálaflokkarnir hafi verið mjög svipaðir undanfarna áratugi, og fer svo og kýs nýjasta vinstriflokkinn, alveg ópólitískur.
Bæði pólitískir og ópólitískir menn byggja skoðanir sínar á ýmsu. Sumir á heildstæðum hugmyndum sem hafa mótast hjá þeim í ljósi langrar reynslu. Þeir hafa með eigin augum fylgst með innlendum og erlendum stjórnmálum lengi og vita hvað snýr upp og hvað niður. Þeir gera kröfur til fréttaflutnings, kaupa sér blöð og tímarit, lesa bækur, hafa kynnt sér sagnfræði, og svo framvegis. Aðrir byggja skoðanir sínar á einhverju öðru, til dæmis stemningu í vinahópnum, athugasemd á netinu eða pistli í blaði sem kom inn um lúguna hjá þeim án þess að þeir hefðu beðið um það. Skoðanir þeirra þurfa ekki að vera verri en hinna, þótt þeir eyði minni tíma í að velta málunum fyrir sér. Langar vangaveltur eru ekki trygging fyrir réttri niðurstöðu.
Svo skiptir auðvitað miklu máli hvert menn leita fróðleiks. Það er mjög gagnlegt að lesa raunverulega vönduð sagnfræðiverk sem fræða og og stórauka skilning á því sem gerist í heiminum. En svo geta menn líka lesið bók eftir Michael Moore.
Jafnvel þeir sem lítið fylgjast með þjóðmálum hafa einhverjar hugmyndir um þau. En hvort ætli sé algengara að þessar hugmyndir séu byggðar á tilfinningu eða raunverulegri þekkingu?
Óli Björn Kárason varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins skrifar grein í Morgunblaðið í morgun þar sem hann svarar grein Ögmundar Jónassonar, sem áður hafði skrifað um Sjálfstæðisflokkinn og heilbrigðismál. Ögmundur var eins og menn muna heilbrigðisráðherra á fyrstu valdamánuðum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2009 og stóð að öllum fjárlögum sem samþykkt voru á vinstristjórnarárunum 2009-2013. Óli Björn segir meðal annars:
Að raungildi var framlag til heilbrigðismála um 28,5 milljörðum lægra árið 2012 en 2009.
Að raungildi var framlag til sjúkrahúsa um 6,9 milljörðum lægri 2012 en 2009.
Framlög til Landspítalans lækkuðu verulega í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og VG. Þau voru liðlega 4,3 milljörðum lægri 2012 en 2009.
Á síðasta ári voru framlög til Landspítalans um 5,5 milljörðum hærri en árið 2012 og um 1,2 milljörðum hærri en 2009 að raungildi.
Framlag til Sjúkrahússins á Akureyri (FSA) lækkaði að raungildi um 310 milljónir frá 2009 til 2012.
Á síðasta ári var framlag til FSA hins vegar 730 milljónum hærra en 2012 og 420 milljónum hærra en 2009.
Í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og VG hækkaði kostnaðarhlutdeild sjúklinga.
Hlutdeild heimilanna í heilbrigðisútgjöldum hækkaði verulega og hefur aldrei verið hærri en í tíð vinstristjórnar. Lægst var hlutdeildin 2008 þegar sjálfstæðismenn stýrðu forsætisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu.
Nú geta menn haft hvaða skoðun sem er á opinberum útgjöldum til heilbrigðismála. Stuðningsmenn vinstristjórnarinnar geta svo auðvitað haldið langar ræður um að efnahagsástandið í landinu hafi verið slæmt, ekki sanngjarnt að draga ályktanir af þessum tölum, og svo framvegis. En hver ætli sé almenn tilfinning fólks? Heyrist mikið talað um að núverandi stjórnvöld hafi aukið verulega útgjöld til heilbrigðismála? Eða er kannski frekar talað eins og þau skeri og skeri niður?