Mánudagur 27. júlí 2015

Vefþjóðviljinn 208. tbl. 19. árg.

Hvað hafa rauðhærðir annars fengið úr hinum íslenska kvikmyndasjóði? Kvóta á það.
Hvað hafa rauðhærðir annars fengið úr hinum íslenska kvikmyndasjóði? Kvóta á það.

Vondar hugmyndir koma í stríðum straumum og ótrúlega margar þeirra fá hljómgrunn á ólíklegustu stöðum.

Nú mun leikstjórinn Baltasar Kormákur hafa lagt til að settur verði kynjakvóti á úthlutanir úr hinum opinbera Kvikmyndasjóði, til að fleiri konur fái styrki en færri karlar.

Menntamálaráðherra hefur strax lýst stuðningi sínum við hugmyndina. Hann segist að vísu vera almennt ekki hlynntur kynjakvótum, en hins vegar í einmitt þessu tilviki sé annað uppi á teningnum.

Þetta er svipað og hjá hinum rammpólitíska viðskiptaráðherra. Hún er einmitt ekki hlynnt kynjakvótum, almennt, en það hittist svo á að hún vill ekki hagga við kynjakvótanum sem heyrir undir hennar ráðuneyti, kynjakvóta í  stjórnum einkafyrirtækja.

Það er gaman að öllum þessum ópólitískum ráðherrum, sem eru harðir á pólitísku meiningunni, almennt. En bara ekki þegar á einstök mál reynir.

En ef menn vilja kvóta á opinberar úthlutanir til listamanna, hvers vegna á þá að miða kvótana við atriði eins og þau sem ráða kyni. Væri ekki miklu nær að miða við eitthvað sem skiptir meira máli?

Hafa menn skoðað lífsviðhorf þeirra sem fá úthlutað stykjum til listsköpunar?

Getur verið að sá hópur sé fremur einlitur pólitískt? Getur verið að ríkið ýti fremur undir ein lífsviðhorf en önnur í listsköpun? Hvers vegna ætli það sé ekki skoðað og síðan verði gefnir út kvótar?

Vinstrisinnaðir höfundar fái ákveðið hlutfall. Hægrisinnaðir annað. Uppreisnargjarnir fái sitt, íhaldssamir annað. Trúaðir fái sitt, trúlausir annað. Ungir og gamlir. Höfuðborgarbúar fái eitt hlutfall, landsbyggðarmenn annnað. Hvað væri vitlausara við þetta en að setja upp kvóta eftir kynferði listamannanna?

Kona sem ákveður að gera bíómynd er ekki fulltrúi kvenna. Hún er bara hún sjálf, rétt eins og karlkyns leikstjóri er ekki fulltrúi karla.