Vefþjóðviljinn 207. tbl. 19. árg.
Á síðasta ári hirti hið opinbera 277 milljarða úr launaumslögum landsmanna í tekjuskatt. Þar af runnu 159 milljarðar sem útsvar til sveitarfélaga en 118 milljarðar í ríkissjóð. Sveitarfélögin fá þannig 57% af tekjuskatti einstaklinga en ríkið 43%. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tekur hærri skatt af launum Reykvíkinga en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Þetta kemur sjálfsagt mörgum á óvart enda fá launþegar í fæstum tilvikum upplýsingar um hvert tekjuskatturinn rennur.
Það er gamalt baráttumál Andríkis að launþegar séu upplýstir um hvert tekjuskattur þeirra rennur; til ríkis eða sveitarfélags. Félagið gaf jafnvel út litla greinargerð um málið árið 2005. Þar var hvatt til þess að skipting í tekjuskatt og útsvar kæmi fram á launaseðlum. Þá hafði það um árabil gerst að í hvert sinn sem ríkið lækkaði sína tekjuskattsprósentu notuðu sveitarfélögin tækifærið til að hækka útsvarsprósentuna.
Þegar þessi hugmynd um bættar upplýsingar var borin undir Indriða H. Þorláksson þáverandi ríkisskattstjóra taldi hann hins vegar mikil vandkvæði á því að veita launþegum slíkar upplýsingar um hvert tekjuskatturinn rennur. Í viðtali við Ríkissjónvarpið 4. október 2005 sagði Indriði:
Það er vafalaust góður ásetningur en ég efast um að hann skili miklu og auk þess sýnist mér það vera óframkvæmanlegt nema með mjög miklum reiknikúnstum þannig að ég held að það sé nú tillaga sem menn ættu að skoða betur áður þeir hugleiði eitthvað slíkt í alvöru. Sú mynd sem að einstakur launaseðill gefur af þessu er aldrei rétt og auk þess held ég bara til þess fallin að rugla fólk.
Þrátt fyrir að Indriði teldi nær útilokað að veita þessar upplýsingar vegna reikniflækju voru dæmi um að fyrirtæki sundurliðuðu þetta fyrir launþega sína á launaseðlum.
Það þurfti ekki miklar reiknikúnstir til þess. Að minnsta kosti voru þær einfaldari en þær kúnstir sem síðar þurfti til að reikna út þriggja þrepa tekjuskattinn sem Indriði hannaði fyrir Jóhönnu og Steingrím árið 2009 og Íslendingar hafa búið við síðan.
Og nú hefur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra beitt sér fyrir því að þessum sjálfsögðu upplýsingum séu gerð góð skil á álagningarseðlum landsmanna. Þar birtist nú skífurit sem sýnir glöggt hver stór hluti tekjuskattsins rennur til ríkisins og hve stór til sveitarfélags.
Ætli þessar gagnlegu upplýsingar „rugli fólk“ mjög eins og Indriði H. Þorláksson óttaðist?