Vefþjóðviljinn 143. tbl. 19. árg.
Tvær fíkniefnatengdar fréttir vöktu athygli Vefþjóðviljans nýlega.
Afnám banns við notkun fíkniefna er ekki lengur aðeins áhugamál lítils hóps hippa og frjálshyggjumanna. Samkvæmt nýrri könnun MMR á Íslandi er fjórðungur aðspurðra frekar eða mjög fylgjandi því að „neysla kannabisefna verði gerð lögleg á Íslandi.“ Hluti þeirra sem er mjög andvígur lögleiðingu hefur sömuleiðis minnkað úr 75% 2011 í 60% nú.
Þetta er afskaplega jákvæð þróun þótt hún mætti vera hraðari.
Í frétt Morgunblaðsins í gær sagði svo:
Vopnaðir glæpamenn í Tanhuato í Mexíkó réðust í dag á lögreglu og hermenn í bænum. Glæpamennirnir sátu fyrir lögreglunni og réðust á hana þegar hún ók í gegnum bæinn. Tveir lögreglumenn eru sagðir vera á meðal hinna látnu. Ekki er vitað nákvæmlega hverjir árásarmennirnir voru en fíkniefnaklíkur berjast harkalega um yfirráð yfir svæðinu þar sem árásin átti sér stað. Er svæðið nú á bandi hraðast vaxandi fíkniefnaklíkunnar í Mexíkó. Glæpamennirnir hafa á undanförnum vikum staðið fyrir fjölda árása á lögreglu og aðra embættismenn.
Því miður eru fréttir sem þessar engin nýlunda frá þeim ríkjum þar sem náttúrlegar aðstæður til fíkniefnaframleiðslu eru hagstæðar. Mörg þessara ríkja eru hreinlega á barmi borgarastyrjaldar vegna fíkniefna – eða öllu heldur vegna fíkniefnabannsins á Vesturlöndum. Án bannsins væri framleiðslan ekki í höndum glæpasamtaka í þessum löndum og þau hefðu þar af leiðandi ekki afl til að bjóða lögreglu og her birginn.
Stundum er tallað um „collateral damage“ þegar óviðkomandi eru drepnir í stríðátökum. Þær þúsundir almennra borgara sem til að mynda hafa fallið í fíkniefnatengdum átökum í Mexíkó undanfarna áratugi tilheyra þeim flokki í stríði Vesturlanda gegn þeim persónulegum verknaði sem neysla fíkniefna er.