Helgarsprokið 24. maí 2015

Vefþjóðviljinn 144. tbl. 19. árg.

„Vinstri og hægri eru úrelt hugtök.“

Þetta er einn af þeim frösum sem oft hefur mátt heyra á síðustu árum. Hann er tómt rugl.

Vinstri og hægri eru hreint ekki úrelt hugtök. Það er geysilegur munur á grundvallarviðhorfum fólks til vinstri og hægri. Það skiptir verulegu máli hvort stjórnmálamenn horfa til hægri eða vinstri. Hvort þeir auka frelsi fólks eða minnka það. Hvort þeir lækka skatta eða hækka þá. Hvort þeir auka opinbert eftirlit eða minnka það. Hvort þeir auka samningafrelsi fólks eða setja því auknar skorður. Hvort þeir leyfa eða banna. Hvort þeir telja eignarrétt grundvallarmannréttindi eða hindrun við framkvæmd tilrauna í þjóðfélagsverkfræði. Hvort þeir telja einstaklinginn eiga að vera sem frjálsastan eða hvort þeir telja hann nafnlaust tannhjól í vél sem á að vinna í þágu heildarhagsmuna.

Vinstri og hægri eru alls ekki úrelt hugtök.

Það sem hins vegar hefur breyst á allra síðustu misserum að stjórnmálamenn, sem setjast í þing eða í sveitarstjórnir með atkvæðum hægrisinnaðra kjósenda, virðast alltaf verða hræddari og hræddari við að tala máli frelsis hins almenna borgara. Þeir þora ekki að lækka skatta. Þeir þora ekki að afnema boð og bönn.

Þeir hagga ekki við neinu sem síðasta ríkisstjórn gerði, svo ótrúlegt dæmi sé tekið.

Vasapeningaþjóðfélagið þenst út jafnt og þétt.

Í síðustu viku var sagt frá því að tekjur ríkisins af tekjuskattskerfinu koma í raun aðeins frá 30% fremteljenda. Þegar horft er til þátttöku ríkissins í útsvarsgreiðslum til sveitarfélaga og þess sem greitt er til fólks með barnabótum og vaxtabótum, þá er ríkið í mínus gagnvart 70% framteljenda. Árið 2013 voru til dæmis greiddir 17,5 milljarðar króna í barnabætur og vaxtabætur.

Þetta eru merkilegar tölur. Þær sýna líka eilífðarvél í fæðingu. Vinstrimenn hafa jafnan viljað taka sem mest fé af fólki inn í ríkissjóð, og deila því þaðan út aftur. Þannig verða fleiri og fleiri upp á ríkið og valdamenn þess komnir. Innheimta sem mesta skatta og deila svo út bótum. Vaxtabætur. Barnabætur. Húsaleigubætur. Bætur. Framlög. Styrkir. Niðurgreiðslur. Frumkvöðlastyrkir. Ívilnunarsamningar.

Fá sem flesta á bætur. Því fleiri sem þurfa að treysta á bætur, því fleiri verða hræddir ef stjórmálamaður vill „endurskoða bótakerfið“. Því fleiri sem treysta á bætur, því fleiri munu kjósa þá sem segjast ætla að „standa vörð um velferðarkerfið“. Jafnvel þótt háum sköttum og víðtæku bótakerfi fylgi til lengri tíma minni framleiðni og minni verðmætasköpun, sem leiðir aftur til þess að úr minni verðmætum verður að spila, þá vilja vinstrimenn gera sem allra flesta háða bótum frá hinu opinbera.

Þegar stjórnmálamenn skattleggja fólk og fyrirtæki, en deila síðan peningum út í gegnum allskyns opinber kerfi, tekst þeim auðvitað að stýra hegðun fólks að einhverju leyti. Skattgreiðandinn hefur minna vald yfir eigin sjálfsaflafé, en þarf að leita til ríkisins til að fá hluta af því aftur. Þetta er ekki aðeins gert í gegnum bótakerfi heldur einnig með einstökum ríkisútgjöldum.

Vinnandi fólk er skattlagt svo útborguð laun lækka. Virðisaukaskattur er lagður á innkaup þess svo vöruverð hækkar. Fjármagnstekjuskattur er hækkaður svo húsaleiga hækkar.Stjórnmálamenn taka svo þessa peninga og dreifa þeim til frekra hagsmunahópa. Tónlistarhús. Íþróttavöllur. „Íslenski skálinn á Feneyjatvíæringnum“. Ferðasjóður íþróttafélaga. Jarðgöng. Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. Ríkisútvarpið.

Og svo framvegis.

Fáir stjórnmálamenn á hægri kantinum þora að setja sig upp á móti einu einasta svona máli. Þeir þora ekki að segja að ríkið eigi að hætta að halda úti „íslenskum skála á Feneyjatvíæringnum“. Þeir þora ekki að segja að íþróttafélög eigi að borga ferðakostnað sinn sjálf. Og fáir þeirra þora að berja í borðið og segja: Nú lækkum við tekjuskattinn í landinu svo fólk taki eftir því, en skerum svo niður bruðlið á eftir.

Enginn.

En þeir geta farið á ferðamálaráðstefnur og kvikmyndahátíðir. Barist fyrir náttúrupassa og viðhaldið kynjakvótum. Þeir geta hækkað framlög skattgreiðenda til Ríkisútvarpsins, í skiptum fyrir aukna vinstrislagsíðu þar á hverjum degi. En tekjuskattinn geta þeir ekki lækkað. Útsvar sveitarfélaga geta þeir ekki lækkað. Það eru ekki til peningar fyrir því. Það gæti orðið umdeilt. ASÍ gæti sent frá sér ályktun. Einhver gæti farið að safna netundirskriftum og Ríkisútvarpið sagt frá söfnuninni níu sinnum á dag.

Hægri og vinstri eru ekki úrelt hugtök.

Það sem er úrelt eru hræddir hægrimenn.