Vefþjóðviljinn 142. tbl. 19. árg.
Eins og menn vita og mjög margir hafa fundið fyrir eru háskólamenntaðir menn nú í verkfalli, sem hefur verið vandlega skipulagt til þess að valda sem mestum óþægindum, en með lágmarkstilkostnaði fyrir verkfallsmenn. Skjöl eru ekki afgreidd hjá sýslumanni, ferskt kjöt fæst ekki í verslanir og svo framvegis.
Í morgun greindi Morgunblaðið frá því að gámar með vörum stöðvuðust í tolli, þrátt fyrir að aðeins örlítill hluti innihaldsins þyki þurfa meðhöndlun einhvers sem sé í verkfalli. Þannig hafi gámur með blandaða þurrvöru, sem Kaupás er að flytja til landsins, stöðvast í tolli því í gámnum sé einn kassi af hunangi og hunang „þarf sérstaka umfjöllun matvælastofnunar“, að sögn Sigurðar Gunnars Markússonar hjá Kaupási, sem Morgunblaðið talar við.
Í fréttinni segir jafnframt að hundruð tonna af vörum bíði nú tollafgreiðslu en komist ekki inn í landið vegna verkfalls dýralækna. Hafi Félag atvinnurekenda beðið matvælastofnun um „að stimpla skjölin enda standi hvergi í lögum að ákveðin starfstétt þurfi að veita leyfið – aðeins stofnunin sjálf.“
Nýlega var hér nefnt að sýslumenn eru ekki sjálfir í verkfalli. Þeim er heimilt að afgreiða öll mál sem til þeirra berast. Þeir mega gera fjárnám, þinglýsa skjölum, veita leyfi og svo framvegis.
Það blasir við að sýslumenn eiga að gera þetta eins og þeir geta, og draga þannig úr óþægindum fólks vegna verkfallsins. Í því er ekkert lögbrot fólgið.
Ekkert hefur heyrst um að sýslumaður hafi gert slíkt, fyrir utan að veita eitt skemmtanaleyfi. Ekkert hefur heldur heyrst um að matvælastofnun hafi reynt að greiða úr vandræðum sem skapast hafa vegna verkfallsins.
Þá vaknar spurning: Getur verið að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi virkilega ekki gefið undirstofnunum sínum skýr fyrirmæli um að gera það sem í þeirra valdi stendur til að draga úr tjóni og óþægindum vegna verkfallsins?
Hefur innanríkisráðherra til dæmis ekki tryggt að sýslumaður geri það sem í hans valdi stendur til að afgreiða erindi sem safnast nú upp hjá honum á hverjum degi?
En kannski hafa embættismennirnir ekki sagt ráðherrunum að gera þetta. Þangað til gerist ekkert.