Fimmtudaginn 21. maí 2015

Vefþjóðviljinn 141. tbl. 19. árg.

Félagsmenn í VR samþykktu á dögunum að boða til verkfalls. Niðurstöður allsherjarkosningar félagsmanna urðu mjög athyglisverðar. Verkfallsboðunin naut í raun sáralítils stuðnings í félaginum en engu að síður var verkfallið samþykkt.

Stjórn félagsins hafði efnt til mikillar auglýsingaherferðar í aðdraganda kosningarinnar. Engu að síður var þátttakan í kosningunni svo lítil að það voru ekki nema um 14% félagsmanna sem samþykktu verkfall. Af 26.225 manns á kjörskrá sögðu 3.830 já en 2.624 nei. Þrír af hverjum fjórum félagsmönnum neyttu ekki atkvæðisréttar síns, og því var verkfall samþykkt með atkvæðum um 14% félagsmanna.

En lítil kosningaþátttaka í verkalýðsfélögum er ekki endilega það sem mest er athugavert. Verra er þegar forsvarsmenn stéttarfélaganna nota félagssjóði til áróðurs fyrir því að félagsmenn kjósi eins og forsvarsmennirnir vilja.

Sum verkalýðsfélög auglýsa og auglýsa á kostnað félagsmanns og hvetja félagsmenn til að segja já við tillögu um verkfall. Peningar félagsmanna allra erunotaðir til að reka áróður fyrir því hvernig þeir kysu í kosningum innan félagsins.

Ætli þeim félagsmönnum sem segja „nei“, líki ekki vel að félagsgjöldin þeirra séu notuð í þessu skyni?

Er ekki full ástæða fyrir fréttastofurnar til að kanna þetta mál? Ættu þær ekki að fá upplýsingar hjá forystu verkalýðsfélaganna hve miklum peningum úr félagssjóði hún ver til að hafa áhrif á það hvað félagsmenn kjósi ? Og hvort þeir félagar sem hafi verið annarrar skoðunar, hafi fengið samsvarandi fjármagn úr félagssjóði til sinnar baráttu?

Kristinn Karl Brynjarsson, félagsmaður í verkalýðsfélaginu Eflingu, vakti í grein í Morgunblaðinu í vikunni athygli á sambærilegu háttalagi stjórnar Eflingar. Þar var meira að segja gengið svo langt að félagsmenn fengu kjörseðil sendan heim í pósti, en með í umslaginu var kynningarefni frá stjórninni með leiðbeiningum hvernig ábyrgir félagsmenn ættu að kjósa „já“, við tillögunni.

Finnst mönnum eðlilegt að félagsgjöld til verkalýðsfélaga séu notuð til að hafa áhrif á það hvernig félagsmenn nýta atkvæðisrétt sinn um mikilvæg málefni félagsins?

Þeir sem tala mikið um að verkfallsrétturinn sé „helgasti réttur launafólks“, finnst þeim ekki sérstaklega mikilvægt að launafólk sé ekki undir óeðlilegum þrýstingi þegar það tekur ákvörðun um hvernig það nýtir þennan „helgasta rétt“ sinn?