Miðvikudagur 20. maí 2015

Vefþjóðviljinn 140. tbl. 19. árg.

Eins fjarstæðukennt og það hljómar mun að störfum nefnd á kostnað íslenskra skattgreiðenda sem skoðar möguleikana á því að hringla með stjórnarskrá eins farsælasta lýðveldis og lýðræðisríkis veraldarsögunnar.

Á síðasta ári skrifaði einn nefndarmanna blaðagrein og nefndi þar nokkur atriði sem væru til umfjöllunar. Þar á meðal sagði hann að væri sú hugmynd að setja í stjórnarskrána ákvæði sem leyfði að íslenskt ríkisvald yrði framselt í þágu alþjóðlegrar og evrópskrar samvinnu. Almenn samstaða væri um þetta.

Þetta kom spánskt fyrir sjónir og því fékk Andríki MMR til að gera könnun meðal almennings um þetta efni. Spurt var: Hversu hlynntur eða andvígur ert þú því, að stjórnarskrá Íslands verði breytt þannig,að Alþingi verði heimilað að framselja hluta íslensks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana?

Skemmst er frá því að segja að aðeins 14% aðspurða voru því hlynntir að framselja íslenskt ríkisvald með þeim hætti en 69% því andvíg.

Reyndar má velta því fyrir sér hví þó svo margir vilja afhenda andlitslausum skriffinnum í stofnunum úti í heimi vald yfir hérlendum málefnum. Og sumt af þessu fólki vill jafnvel um leið auka „beint lýðræði.“ Gagnvart hverjum ber ókosni og andlitslausi embættismaðurinn í Genf eða Brussel ábyrgð? Hvernig passar hann inn í hugmyndina um aukið og beint lýðræði þar sem hann situr skattfrjáls og flottur og sendir almenningi skipanir yfir hafið?