Vefþjóðviljinn 135. tbl. 19. árg.
Eins og menn vita hefur Ríkisútvarpið ákaflega mikinn áhuga á verkföllum. Næstum eins mikinn og á „mótmælum“.
Á dögunum voru sagðar fjölmargar fréttir af því að sýslumaðurinn í Reykjavík hefði, þrátt fyrir verkfall lögfræðinga hjá embættinu, gefið út vínveitingaleyfi vegna hátíðar sem halda átti í Kópavogi. Sagt var oft frá óánægju forystumanna BHM með þetta, mótmælum lögfræðinga og fleiru. Svo var sagt frá einhverjum útskýringum sýslumanns, sem hljómuðu eins og auðmjúkar afsakanir.
En fáar fréttir voru um það sem raunverulega skipti máli.
Sem er að sýslumaður var í fullum rétti að gefa út leyfið. Og ekki aðeins þetta leyfi. Sýslumaðurinn er ekki í verkfalli. Hann má alveg gefa út leyfi, þinglýsa skjölum, gera fjárnám og annað sem sýslumenn gera.
Það sem ætti að fjalla um er spurningin: Er sýslumaður ekki örugglega að gera þetta?
Fólk verður fyrir miklu tjóni vegna þaulskipulagðra verkfallsaðgerða. Auðvitað á sýslumaður að reyna að minnka þetta tjón, með því að afgreiða sjálfur þau mál sem hann getur afgreitt. Hann getur ekki annað öllu sem til hans berst á meðan verkfall stendur, en það er fullkomlega heimilt að hann afgreiði þau mál sem hann kemst yfir.
Með því myndi hann ekki aðeins draga úr tilfinnanlegu tjóni hjá fjölda saklauss fólks, heldur einnig standa vörð um það grundvallaratriði að landið stöðvast ekki, þrátt fyrir verkfall. Engin starfstétt á að geta lamað landið alveg, á neinu sviði.
Sýslumaður á að gera það sem í hans valdi stendur til að halda úti starfsemi embættisins. Ráðherra hlýtur að sjá til þess.
Og fyrst minnst er á ráðherra, þá væri skemmtilegt ef landbúnaðarráðherra mætti einfaldlega sjálfur í kjúklingabúin og sláturhúsin og vottaði það sem sagt er að þurfi að votta, svo starfsemin geti haldið áfram. Það er reyndar ekki víst að það teldist heimilt, en hugmyndin er að minnsta kosti skemmtileg að því leyti að Sigurður Ingi Jónsson er einmitt dýralæknir.