Fimmtudagur 14. maí 2015

Vefþjóðviljinn 134. tbl. 19. árg.

Núverandi ríkisstjórn breytir fáu af því sem vinstristjórn Jóhönnu og Steingríms gerði. Frumvörpin sem vinstristjórnin keyrði í gegn, oft af miklu ofstæki, fá öll að vera óhreyfð. Skattar á launafólk hafa einnig næstum ekkert lækkað. Skattþrepin eru enn þrjú. Auðlegðarskatturinn var innheimtu nákvæmlega eins og Steingrímur og Jóhanna skipulögðu hann, og rann svo út á sama tíma og þau höfðu ákveðið.

En þetta er kannski eins gott. Hvernig ætli stjórnarandstaðan, álitsgjafar hennar og starfsmenn Ríkisútvarpsins létu, ef ríkisstjórnin væri í raun að reyna ð vinda ofan af því sem Jóhönnustjórnin gerði?

Þá sjaldan að ríkisstjórnin gerir eitthvað, sem ekki hefði allt eins getað komið frá Steingrími og Jóhönnu sjálfum, þá tryllast vinstrimenn. Og fréttamenn og álitsgjafar taka undir og láta eins og tryllingurinn sýni að nú hafi ríkisstjórnin enn hlaupið á sig.

Þá sjaldan ríkisstjórnin leggur eitthvað til, frá eigin brjósti, þá er það kallað griðrof eða jafnvel „handsprengjur inn í þingið“. Í tæp tvö ár hefur ríkisstjórnin næstum ekkert pólitískt gert, og stjórnarandstaðan virðist telja sig eiga rétt á að það haldi áfram.

Þetta er líklega ein birtingarmynd vinstri-frekjunnar. Þeir komust á bragðið með að stjórna landinu, eftir að hafa náð völdum eftir bankahrunið. Og þeim finnst núna að þeir einir eigi að fá að stjórna. Svona eins og þeir trylltust af reiði þegar 100-daga meirihluti Dags B. Eggertssonar og félaga, sem myndaður var með stuðningi eins varaborgarfulltrúa, missti völdin. Þá var ekki fundafært í ráðhúsinu fyrir vinstrimönnum sem öskruðu á pöllunum. Framhaldsskólakennarar gáfu frí í skólum svo nemendur gætu farið niður í ráðhús til að öskra.

Og nú tryllast vinstrimenn á þingi ef ríkisstjórnin vogar sér að leggja til eitthvað annað en embættismenn hafa sagt henni að leggja til. Þeir telja sig eiga rétt á að banna það.

Rétt eins og þeir sjálfir töldu sér heimilt að láta Ísland sækja um aðild að Evrópusambandinu án þess að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þá ákvörðun, en telja að aðrir megi ekki afturkalla sömu umsókn nema halda þjóðaratkvæðagreiðsluna sem vinstrimenn sjálfir neituðu að halda.

Og þetta bergmála fréttamenn og álitsgjafar.