Helgarsprokið 26. apríl 2015

Vefþjóðviljinn 116. tbl. 19. árg.

Pétur H. Blöndal alþingismaður dirfðist að gera nokkrar athugasemdir við notkun verkfallsréttarins í viðtali við Morgunblaðið um helgina. Hann lýsti til að mynda áhyggjum af því tjóni sem verkföll valda oft óviðkomandi þegar stéttarfélög beita þriðja aðila fyrir sig í baráttunni.

Þá fékk hann þetta yfir sig frá Agli Helgasyni starfsmanni Ríkisútvarpsins og Eyjubloggara:

Frjálsir samningar á vinnumarkaði eru ein grunnstoð þess lýðræðiskerfis sem við búum við.
Pétur hefur reyndar lengstum verið talsmaður auðvalds á Alþingi og menn hafa kunnað að meta að hann er grímulaus hvað það varðar. En það sem hann talar um þarna minnir fremur á þjóðfélagskerfi eins og tíðkaðist á Ítalíu á tíma Mussolinis og Spáni á tíma Francos.

Það er jafnan dapurlegt þegar menn grípa til slíkra samlíkinga við einræðisherra síðustu aldar í almennri umræðu. En í þetta sinn ber það ekki aðeins vott um smekkleysi og hömluleysi heldur einnig furðulega vanþekkingu.

Um hvaða „frjálsu samninga“ er Egill Helgason að tala? Er ekki tugþúsundum íslenskra launþega smalað í samtök sem tekið hafa sér vald til að semja fyrir þeirra hönd? Þessi samtök beita sér einnig af miklu afli í alls kyns pólitískum deilumálum þvert á skoðanir margra þeirra sem neyddir eru til að greiða þeim „félagsgjald“ og alls kyns önnur gjöld.

Þessi samtök beita svo verkfallsréttinum, sem er „réttur“ verkalýðsfélaganna – ekki launþeganna sjálfra – til að senda launþega heim úr vinnu. Launþegi sem vill ekki taka þátt í verkfallinu hefur ekkert val. Verkfallsverðir tryggja að enginn dirfist að ganga gegn vilja verkalýðsfélagsins og beita til þess líkamlegu ofbeldi og öðrum yfirgangi. Hagsmunir þriðja aðila, allt frá ferðamönnum til sjúklinga, eru svo notaðir sem skjöldur í þessari baráttu.

Þótt verkalýðsfélagið kæri sig ekki um að félagsmenn sínir vinni störfin og efni til verkfalls meina þau einnig öðrum að sækjast eftir störfunum sem félagið hefur þó skipað félagsmönnum að hætta að sinna.

Starf verkalýðsfélaganna byggist á því að gera einstaklinginn að litlu og viljalausu verkfæri, nauðungaraðild, einokunn, útilokun þeirra sem vilja vinna störfin og pólitískri misnotkun á nauðungargjöldunum sem þau hirða af launþegum.

Í riti sínu Kennisetningar fasismans segir Mussolini:

When brought within the orbit of the State, Fascism recognizes the real needs which gave rise to socialism and trade unionism, giving them due weight in the guild or corporative system in which divergent interests are coordinated and harmonized in the unity of the State.

Hvað var corporatismi ítalskra fasista annað en ýkt hugmynd um eitt gildi fyrir alla, þar sem einstaklingnum var fórnað fyrir heildina?